fbpx
Fimmtudagur, febrúar 20, 2025
HeimFrá ritstjóraHversdagsleikinn, knatthús og jólin

Hversdagsleikinn, knatthús og jólin

Hversdagsleikinn lætur ekki plata sig í aðdraganda jóla og þó jólaljós logi um allt og jólasöngvar ómi, þá gengur lífið fyrir sig eins og venjulega. Sjúkdómar taka sér ekki frí um jólin og aðrir erfiðleikar oftast ekki heldur. En það er okkar viðhorf til lífsins sem ræður því hvernig okkur líður, a.m.k. andlega í gegnum erfiðleika.

En hversdagurinn inniheldur líka hversdagslega hluti eins og fjárhagsáætlanir, stjórnarmyndun og annað sem aðdrag­andi jólanna breytir litlu um. Það bætir þó andann að fara á tónleika, borða með öðrum á jólahlaðborði, heimsækja Jólaþorpið eða að undirbúa jólin með fjölskyldunni, þeir sem slíka eiga.

Það er ekki mjög bjart yfir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sem gerir aðeins ráð fyrir 45 milljón kr. afgangi af sjálfum bæjarsjóði, A-hluta eins og hann heitir. Það getur hver sem er séð að ekki þarf mikið að breytast til að ástandið versni enn fremur en áætlanir um kostnað standast í svo mörgum tilfellum ekki. Að jákvæður árangur skuli enn einu sinni byggjast á rekstrarafgangi almenningsveitna, fráveitu og vatnsveitu er óásættanlegt og jafnvel ólöglegt enda ekki ætlast til að þær séu reknar í hagnaðarskyni.

Gríðarlegar upphæðir fara í byggingu og kaup á íþróttamannvirkjum og þrátt fyrir góðar áætlanir fyrri bæjarstjóra um að Hafnarfjörður byggi og eigi íþróttamannvirki þá hefur það ekki verið raunin. Áætlanir um að Hafnarfjörður byggði knatthúsið Skessuna í Kaplakrika fór út um þúfur og það stefnir í að kosta sveitarfélagið háar upphæðir. Hafnarfjarðarbær taldi sig knúinn til að láta Deloitte framkvæma úttekt á meðferð fjármuna FH á byggingartíma knatthússins Skessunnar sem snúa helst að byggingarframkvæmdum, fjármögnun og hvernig rekstri Skessunnar hefur verið háttað frá því húsið var tekið í notkun. Setið var á skýrslunni og þegar Fjarðarfréttir fékk skýrsluna loks afhenta kemur í ljós að Deloitte sér margt athugunarvert. M.a. sem bent er á er að tæpar 128 milljónir eru eignfærðar í bókhaldi sem byggingarkostnaður en til skuldar við Knattspyrnudeild FH. Eru þær skuldfærslur taldar upp í skýrslunni en þær eru sagðar vegna styrkja og afslátta og skuldfærslna vegna FH knatthúsa. Þá er bent á ónákvæmni í bókhaldi og t.d. er bent á að ekki sé hægt að greina samhengi milli tekna knatt­spyrnudeildar og greiðslna frá aðalstjórn út frá upplýsingum í ársreikningum deildarinnar. Það eru fleiri alvarlegar athugasemdir í skýrslunni. Ekki hafa fengist svör frá Hafnarfjarðarbæ um viðbrögð við skýrslunni þó Fjarðarfréttir hafi heimildir fyrir að FH hafi verið sendar fjölmargar spurningar í kjölfarið.

Skýrslan kom ekki til umræðu við samþykkt fjárhagsáætlun en þar er samt gert sé ráð fyrir kaupum á Skessunni þó ekki hafi verið gengið frá samningum.

En það er hátíð framundan og henni ber að fagna. Kristið fólk fagnar fæðingu frelsarans og aðrir fagna hátíða ljóss og friðar. Hefðir eru þó sterkar en þeim hefur fjölgað með fjölbreyttari íbúaflóru.

— Gleðileg jól og kærar þakkir fyrir allt!
Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2