fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFrá ritstjóraLeiðarinn - Eldsumbrot og spádómar

Leiðarinn – Eldsumbrot og spádómar

Eldsumbrotin á Reykjanesi hafa hrundið af stað margs konar áhyggjum fólks af því að hraun geti runnið að byggð á höfuð­borgar­svæðinu. Er það skiljanlegt enda eru eldstöðvar allt í kringum okkur og við Hafnfirðingar höf­um nokkrar innan okkar landa­merkja. En það kemur á óvart hvað sérfræðingarnir okkar eru yfirlýsingaglaðir, svo mjög að ætla mætti að þeir væru talsmenn verktaka í varnargarðagerð. En ekki ætla ég þeim annarlegar ástæður en finnst þó undarlegt hversu yfirlýsingarnar renna fram í samtölum við þá og jafnvel án þess að vísindaleg gögn styðji fullyrðingar eða að sérfræðingarnir færi góð rök fyrir máli sínu.

En allir hljóta að vera sammála að mikilvægt er að stjórnir sveitarfélaganna séu meðvitaðar um mögulegar sviðsmyndir og geti með stuttum fyrirvara hrundið af stað vinnu við að verja innviði okkar sé þess kostur og þeir séu í raunverulegri hættu.

En grunnurinn að slíkri vinnu hlýtur að þurfa að koma frá sérfræðingum okkar, ekki úr fullyrðingum hvers og eins, heldur eftir sameiginlega niðurstöðu sérfræðinganna.
Nú síðast vorum við hrædd með fullyrðingum um kvikusöfnun undir Húsfellsbruna og þar sem við Hafnfirðingar skiptum Húsfellinu með Garð­bæingum og Kópavogsbúum er þetta okkur nær­tækt. Húsfellið er þó saklaust af þessum hraunum í Húsfellsbruna sem hafa átt uppruna sinn m.a. í Stóra-Kóngsfelli við Bláfjöll og vestan við Kóngs­fellið en stærsti gígurinn er Eldborg rétt við veginn áður en komið er upp í skíðasvæðið. Ekkert þessara hrauna hefur runnið þar sem byggð er nú.

Vonandi halda sérfræðingarnir okkar ekki áfram að láta blaðamenn draga fram fram hjá þeim vanhugsaðar fullyrðingar til fyrirsagnaskrifa og huga meira að vísindunum og staðreyndum. Eldgosahættu þarf að taka alvarlega.

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2