fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFrá ritstjóraPissukeppni stjórnmálamanna og gangandi vegfarendur

Pissukeppni stjórnmálamanna og gangandi vegfarendur

Leiðari Fjarðarfrétta 7. mars 2024

Gallup gerir árlega viðhorfs­könnun meðal íbúa 20 stærstu sveitarfélaga landsins.
Ætla mætti að slík könnun sé aðallega til að gefa sveitar­stjórnum þokkalega mynd af viðhorfi bæjarbúa til þjónustu sem veitt er og sveitarfélaginu sem stað til að búa á. Enda ætti slík könnun að vera hvatning til að gera betur þar sem á bjátar og halda við því sem vel er gert.

Það vakti því nokkra athygli að fulltrúar þeirra flokka sem mynda meirihluta í bæjarstjórn skyldu leggja ofuráherslu á að Hafnarfjörður stæði sig betur en samanburðar­sveitarfélögin með keyptum auglýsingum á samfélagsmiðlum og í greinar­skrifum, að mestu án þess að minnast á að lítið hafi breyst á milli ára nema þá kannski að samanburðarsveitarfélögin hafi verið að skora lægra en á síðasta ári.

Auðvitað á fólk að vera ánægt með góðan árangur en að líta á svona viðhorfskönnun sem einhverja pissukeppni er í besta falli hjákátlegt.

Hægt virðist ganga að auka virðingu fyrir gangandi vegfarendum og hjólandi. Ólíkt sem maður sér í nágrannalöndunum virðast verktakar hunsa þarfir gangandi og sjaldan eru ráðstafanir gerðar til að leiða umferð fram hjá framkvæmda­svæðum. Þetta sést trekk í trekk hér í bæ og enginn virðist hafa það hlutverk að tryggja að ekki sé brotið á gangandi vegfarendum og þeir settir í stór hættu.

Verra er þegar íbúarnir sjálfir nota gangstéttar og stíga sem stað fyrir bíla og kerrur og taka því illa þegar þeim er bent á brot sín.

Hvernig ætla bæjaryfirvöld að fá fólk til að nýta almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur á sama tíma og lítið sem ekkert er gert til að tryggja öryggi og rétt gangandi vegfarenda.

Framkvæmdir á vegum Hafnarfjarðarbæjar eru ekki undanskildar gagnrýni enda stígar oft einfaldlega lokaðir án þess að aðrar leiðir séu sýndar eða í boði.

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2