fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFrá ritstjóraStarf fyrir hafnfirska æsku mikilvægt fyrir framtíðina

Starf fyrir hafnfirska æsku mikilvægt fyrir framtíðina

Hafnfirsk æska mun skapa framtíð okkar og mikilvægt fyrir okkur að skapa þeim tækifæri til að dafna og þroskast til öflugra starfa.

Sem ungur drengur naut ég þess að geta tekið þátt í fjölbreyttu æsku­lýðsstarfi sem hefur mótað mig sem fullorðinn mann. Ég upplifði fjöl­breytnina og mismunandi áherslur í fótbolta, handbolta, KFUM starfi, badminton og í skátastarfi sem ég svo helgaði mig og get enn í dag deilt því sem ég lærði til ungra skáta. Þarna var allt í bland, keppnisandinn, bræðra­lagið og trúin á hið góða og það var svo mitt að nýta það besta úr öllu.

En hið óskipulagða starf með æskuvinum og félögum í hverfinu og skólanum var einnig mikilvægt, þar sem klifrað var í klettum, kofar smíðaðir og hjólatíkur, skautað á frosinni Ástjörninni og hlaupið um holt og móa í alls konar leikjum. Sköpunargáfan fékk að blómstra og við krakkarnir kenndum hverjum öðrum. Mikilvægt er að skapa aðstöðu til þess að börn fái að njóta nærumhverfisins en það þarf ekki alltaf hoppubelgi til eða önnur tæki. Foreldrar sem njóta útiveru með börnum sínum í mögnuðu umhverfi Hafnarfjarðar upplifa að sjá áhuga barnanna á umhverfinu aukast og ekki síður að sjá börnin læra að njóta þess sem gefst á hverjum stað.

Þrátt fyrir góðar niðurgreiðslur Hafnarfjarðarbæjar getur hár kostnaður hamlað því að börn fái að upplifa mismunandi félagsstarf og þurfi að velja. Það er miður en vonandi sjá félög kost á því að halda verði niðri á sama tíma og sveitar­félagið leggur gríðarlegar upphæðir til uppbyggingar á mannvirkjum og aðstöðu. Þetta er tekið af skatt­greiðslum bæjarbúa og mikilvægt að jafnræði gildi og bæjarbúum sé ekki mismunað.

Öflugt og gott æskulýðs- og íþróttastarf er mikilvægt fyrir hvert samfélag og nauðsynlegt að leggja áherslu á innra starfið og bræðralag ekki síður en afrek. Það er því ekki nægilegt að styrkja umgjörðina (steinsteypuna).

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2