fbpx
Sunnudagur, janúar 5, 2025
HeimFrá ritstjóraStjórnmálaumræðan og miðbærinn

Stjórnmálaumræðan og miðbærinn

Leiðari Fjarðarfrétta 2. febrúar 2022

Frekar rólegt er yfir hafnfirsku stjórnmálaflokkunum þó Sam­fylking og Sjálfstæðis­flokk­ur hafi báðir boðað prófkjör og Bæjarlisti röðun á lista.

Stjórnmálaumræða er nær engin og flokkarnir bíða með að birta stefnuskrá sína. Í sveitarstjórnum er munur á milli flokka allt annar og minni en í þingkosningum og einstaklingar virðast skipta meira máli en flokkarnir og formleg stefnuskrá þeirra.
Áhugi virðist ekki vera sérstaklega mikill á þátttöku í pólitísku starfi í sveitarfélaginu og ekki auðvelt fyrir hvern sem er að taka þátt enda hreinlega ekki gert ráð fyrir að fólk stundi fulla vinnu sem ætti að vera sjálfsagður hlutur.

Öflug uppbygging í miðbænum er mikilvæg eigi verslun og þjónusta að lifa þar af. Hefur margsinnis verið kallað eftir markvissri stefnumótun og uppbyggingu en bútasaumsskipulag ætlar að vera alls ráðandi eins og svo oft áður. Fólk þarf að vera stórhuga í miðbænum, leggja fram metnaðarfullar og djarfar hugmyndir og skapa umræðu um framtíð miðbæjarins okkar. Mikilvægara er að fjölga verslunar- og þjónusturýmum en að fjölga íbúðum enda er reynslan sú að íbúðir skapa sáralítið líf. Á árum áður döfnuðu verslanir og þjónusta í íbúðar­götum en slíkt er nær alveg horfið. Laða þarf að öflugar verslanir og auka vöruúrval í bland við þær verslanir sem fyrir eru. Nú þegar loksins er verið að ganga frá gamla hafnarkantinum á Norðurbakkan­um sést vel hversu stór mistök það voru að hafa ekki verslanir og þjónustu á neðstu hæðum sem snúa að bryggjunni. Eflum miðbæinn og sýnum þor!

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2