fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFrá ritstjóraTómstundastarf og árangur fjármála­stjórnunar

Tómstundastarf og árangur fjármála­stjórnunar

Leiðarinn 2. maí 2024

Gleðilegt sumar!

Það má með sanni segja að framboð af tómstundastarfi fyrir börn og unglinga sé fjölbreytt í Hafnarfirði. Við erum lánsöm að hafa öflug félög, bæði íþrótta- og æskulýðsfélög auk þess sem öflugt starf er í kirkjum bæjarins og ættu því allir að geta fundið eitthvað sér við hæfi.
Ég var sjálfur svo lánsamur að geta verið í skát­unum, fótbolta, handbolta, badminton og KFUM þegar ég var strákur og hefði ég ekki viljað missa af neinu af þessu og frekar vilja auka við. Eftir á sé ég mikilvægi þess að kynnast fjölbreyttu starfi og þurfa ekki of ungur að velja einn farveg.

Börn og unglingar koma inn í tómstundastarf af ólíkum ástæðum og það þarf að virða. Félagslegi þátturinn er mikilvægastur hjá sumum á meðan afrek og árangur er framar á dagskránni hjá öðrum. Vel menntaðir leiðtogar eru því mjög mikilvægir og gott til þess að vita að sífellt er lögð meiri áhersla á að fræða leiðtoga vel til starfa.

Foreldrar eru hvattir til að skoða úrvalið sem í boði er og hvetja börnin til þátttöku, ekki til að uppfylla brostnar vonir foreldra úr æsku heldur að börnin fái að njóta og þjálfast líkamlega og andlega. Þá má ekki gleyma mikilvægi þess að fjölskyldan geri eitthvað saman og góð útivera í okkar fallega umhverfi er frábær leið til þess að eiga gæðastundir með börnunum.

Ársreikningur bæjarins hefur verið lagður fram og þar sýnist sitt hverjum um árangur fjármála­stjórnunar. Ljóst er að rekstur sveitarfélaga er erfiður og gríðarlegir fjármunir fara í fasteignir. Það virðist ekki sem stefnumörkun sé mjög skýr þó svo gerðar séu langtíma fjárhagsáætlanir. Virðast þær stundum vera gerðar meira af skyldu en metnaði og verða þá til lítils gangs, svipað og stefnur sem samþykktar eru en lítið horft til þegar blekið hefur þornað. Auðvitað á að fagna því að skuldaviðmið lækkar en frekar ætti að horfa til skuldahlutfalls enda skuldaviðmið útbúið sérstaklega þegar sveitarfélög voru í mjög slæmum málum. Við erum það ekki, er það?

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2