fbpx
Þriðjudagur, janúar 21, 2025
HeimFrá ritstjóraÚtgáfa, byggingarmál og kosningar

Útgáfa, byggingarmál og kosningar

Gleðilegt ár kæri lesandi og takk fyrir samfylgdina á liðnu ári.

Fjarðarfréttir munu koma út að jafnaði mánaðarlega á þessu ári. Gott samstarf við verslunar­miðstöðina Fjörð um Fjarðarfréttir hefur stutt mjög við útgáfuna og á köflum nánast tryggt að hægt sé að halda úti bæjarblaði. Og vonandi sjá fleiri hafnfirsk fyrirtæki hag sinn í að hér sé lifandi bæjarblað en útgáfa slíkra blaða er mjög erfið, ekki síst í stóru bæjarfélagi eins og Hafnarfirði. Fjarðarfréttir er galopið fyrir fréttir af fyrirtækjum í bænum, hvort heldur í blað eða á vefinn þar sem plássið er ekki takmarkað.

Það er fagnaðarefni að bjart er framundan í byggingarmálum í Hafnarfirði eftir tímabil íbúðaskorts og fólksfækkun sem er einstakt í langri sögu Hafnarfjarðarkaupstaðar. Ungt fólk hefur sótt út fyrir bæinn eftir fyrstu íbúð og eldra fólk sem vill minnka við sig hefur líka þurft að leita í nágrannasveitarfélögin en vonandi verður úrval íbúð betra á næstu árum og nægilegt til að fólk þurfi ekki að leita annað.

Mikið er byggt af atvinnuhúsum í syðstu hverfum bæjarins á sama tíma og þrengt er að minni iðnaði á eldri svæðum þar sem koma á íbúðum fyrir. Efitt reynist að finna hentugt húsnæði fyrir minni iðnað og þjónustu á sama tíma og mikið framboð er af geymsluhúsnæði og sk. dótakössum og stærri iðnaðarlóðum. Má velta því fyrir sér hvort markviss stefna sé til fyrir atvinnuuppbyggingu í Hafnarfirði og hvort þrengja eigi svo að iðnaði í gömlu hverfunum að hann muni hrökklast í syðsta hluta bæjarins og svokallað fimm mínútna hverfi verið hrein blekking þar sem flestir þurfi að aka langt til vinnu.

Kosningar eru framundan og nú er tækifæri fyrir flokkana sem bjóða fram að hætta þeim ósið að mynda meiri- og minnihluta óháð afstöðu til mála. Bæjarbúar eiga heimtingu á fullvirkri 11 manna bæjarstjórn í Hafnarfirði, mönnuð fulltrúum íbú­anna. Það á enginn að sitja utangátta í bæjarstjórn og mættu Hafnfirðingar taka Akureyringa sér til fyrirmyndar í þeim efnum. Að vera bæjarfulltrúi er ekki atvinna heldur hugsjón sem reyndar er greitt vel fyrir. Gera á fólki úr öllum starfsstéttum möguleika á að starfa í bæjarstjórn og eðlilegt væri að allir fundir yrðu eftir kl. 17 á daginn svo fólk geti stundað sína vinnu. Áfram Hafnarfjörður!

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2