Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir árið 2021 var lagður fram í bæjarráði í gær.
Rekstrarafkoma sveitarsjóðs (A hluta) var neikvæð um 1.480 milljónir kr. sem þó var betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Rekstrarafkoma B hluta, Vatnsveitu, Fráveitur, Hafnarsjóðs og Húsnæðisskrifstofu, var hins vegar jákvæð um 771 milljón kr.
Akureyrarbær kynnti nýlega mikinn viðsnúning í rekstri þar sem afkoma A-hluta var jákvæð um 318 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.447 millj. kr.
Kópavogskaupstaður kynnti nýlega einnig sinn ársreikning sinn þar sem rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 24 milljónir króna en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir um milljarði króna í tap.
Hækkun lífeyrisskuldbindinga sögð helsta skýringin
„Ársreikningurinn endurspeglar aukinn fjárhagslegan styrk Hafnarfjarðarbæjar þrátt fyrir miklar áskoranir í rekstrarumhverfi sveitarfélaga á síðasta ári. Það sést ekki síst í stórauknum fjárfestingum og verulegri uppgreiðslu langtímalána,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í tilkynningu. „Það kemur nú niður á okkur Hafnfirðingum hve lengi var dregið að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar. Þar var bæjarfélagið mörgum árum á eftir nágrannasveitarfélögunum en Hafnarfjarðarbær hóf ekki að greiða inn á þær fyrr en árið 2012,“ segir bæjarstjórinn en í tilkynningunni segir að hækkun lífeyrisskuldbindinga á síðasta ári hafi verið 2,3 milljarðar kr. Þar af valdi nýir útreikningar tryggingastærðfræðinga á forsendum um lífaldur um 900 milljóna króna hækkun skuldbindinga hjá Hafnarfjarðarbæ.
8,2% hækkun rekstrartekna A-hluta og 11,1% hækkun hjá B-hluta
Rekstrartekjur A-hluta var 31,2 milljarðar kr. og hækkaði um 8,2% á milli ára og um 7,4% frá uppfærðri fjárhagsáætlun með viðaukum.
Mesta hækkunin var af lóðaúthlutun en tekjur af lóðaúthlutun nam 2.554 milljónum kr. en aðeins hafði verið áætlað að þær tekjur yrðu 986 milljónir kr. Á móti var kostnaður vegna framkvæmda við lóðir og framkvæmdir 2.150 milljónum kr. sem er þó töluvert minna en áætlað hafði verið. Seldar voru lóðir fyrir 3,5 milljarða króna og voru tekjufærðir 2,5 milljarðar vegna lóðasölu og um milljarður til lækkunar á eignfærslum.
Þá hækkuðu útsvarstekjur um 4,4% frá áætlun en tekjur af fasteignaskatti lækkuðu hins vegar um 3,8% frá áætlun.
Áfram mikill hagnaður af rekstri Vatnsveitu og Fráveitu
B-hluta fyrirtæki eru ekki gerð upp sérstaklega í ársreikningi en ef tekið er mið af tekjum og gjöldum er hagnaðarhlutfall gríðarlegt, sérstaklega af Vatnsveitu og Fráveitu en um þau fyritæki gilda þó ákveðnar reglur um hámarkshagnað. Ekki er hægt að sjá í ársreikningi bæjarins hver reiknaður arður þeirra er til aðalsjóðs og ekki hægt að sjá hversu miklu hefur verið safnað í framkvæmdasjóð en hagnaður af B-hlutafyrirtækjunum er samtals 771,1 milljón kr. þrátt fyrir halla á rekstri Húsnæðisskrifstofu.
- Tekjur Vatnsveitu var 475 milljónir kr. en gjöld 240,3 milljónir kr. og hagnaðarhlutfall því 49,4%.
- Tekjur Fráveitu var 903,3 milljónir kr. en gjöld 437,2 milljónir kr. og hagnaðarhlutfall því 51,5%.
- Tekjur Hafnarsjóðs var 755,7 milljónir kr. en gjöld 557,2 milljónir og hagnaðarhlutfall því 26,3%.
- Gjöld Húsnæðisskrifstofu voru hins vegar 127,7 milljónum kr. umfram tekjur sem var 87,7 milljónum verri niðurstaða en áætlað var.
Launakostnaður eykst og stöðugildum fjölgar
Aukinn launakostnaður vegur þungt í Hafnarfirði eins og hjá öðrum sveitarfélögum en laun og launatengd gjöld hækkuðu um 9,4% milli ára.
Í árslok 2021 störfuðu 2.447 starfsmenn hjá sveitarfélaginu í 1.644 stöðugildum. Hafði starfsmönnum fækkað um 14 en stöðugildum hafði fjölgað um 66 frá árinu á undan.
Laun bæjarstjórnar og bæjarstjóra námu 100,5 milljónir króna á árinu 2021 og hafði hækkað um 5,9% á árinu. Eru laun bæjarstjórnar og bæjarstjóra um 0,7% af heildar launagreiðslum bæjarins.
Skuldir 50,1 milljarður en skuldahlutfall lækkaði í 149% af tekjum
Lán sveitarfélagsins voru greidd niður um 2 milljarða króna á síðasta ári en við bættis 350 milljón króna fjármögnun Húsnæðisskrifstofu vegna kaupa á félagslegu íbúðarhúsnæði. Skuldahlutfall Hafnarfjarðarkaupstaðar lækkaði úr 161% niður í 149% en það eru heildarskuldir og skuldbindingar í hlutfalli við reglulegar tekjur sveitarfélagsins.
Voru skuldir og skuldbindingar A-hluta 46,3 milljarðar kr. og heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins 50,1 milljarður kr.
Af heildarskuldunum eru lífeyrisskuldbindingar 15,6 milljarður kr.
B-hluta fyrirtækin standa undir veltufé frá rekstri og handbæru fé
Veltufé frá rekstri A-hluta var neikvætt um 14,2 milljónir kr. en rekstrarfé frá rekstri B-hluta fyrirtækja var 1,4 milljarðar króna eða um 59,2% af heildartekjum B-hlutans. Hlutfall veltufjár frá rekstri A- og B-hluta var hins vegar 4,1% af heildartekjum.
Handbært fé frá rekstri A-hluta var neikvætt um 626 milljónir kr. en jákvætt um 1.392 milljónir hjá B-hluta fyrirtækjunum
Fjárfest fyrir 3,4 milljarð kr.
Fjárfestingar á árinu 2021 námu 3,4 milljörðum króna sem er um 28% aukning milli ára.
- Gatnamannvirki og lóðir vega hæst með 1.179 milljónir kr.
- Lífsgæðasetur St. Jó kostaði í framkvæmdum 365 milljónir kr. á árinu
- Endurgerð Sólvangs kostaði 274 milljónir kr. á árinu
- Framkvæmdir á Ásvöllum kostuðu 140 milljónir kr.
- Bláfjallasvæðið: 92 milljónir kr.
- Skólabyggingar: 86 milljónir kr.
- Leikskólar: 16 milljónir kr.
Hjá B-hluta fyrirtækjum var þar af fjárfest fyrir einn milljarð kr.
- Vallarræsi og dælur kostuðu á árinu 314 millj. kr.
- Keyptar voru íbúðir fyrir 303 milljónir kr.
- Kostnaður við hafnarmannvirki og lóðir var 229 milljónir kr.
Eignir jukust um 5,2 milljarða
Heildareignir í lok árs voru alls 72,2 milljarðar króna og jukust um 5,2 milljarða króna á milli ára.
Þegar þetta er ritað hefur fundargerð bæjarráðs ekki verið birt en skoða má hann hér: Ársreikningur Hafnarfjardarbæjar 2021_fyrri umræða.