Unnið utan hefðbundins þjónustutíma til að vinna upp seinkun
Mikil röskun hefur orðið á sorphirðu undanfarið í Hafnarfirði.
Tæming á ruslatunnum er nú 10 dögum á eftir áætlun skv. upplýsingum á síðu Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eru ástæðurnar sagðar tafir vegna ófærðar og frídagar yfir jólin sem var þó aðeins einn. Þá er sagt að tækni, tæki og mönnun sorphirðu á vegum þjónustuaðila hafi haft mikil áhrif með þeim afleiðingum að erfitt hefur reynst að vinna upp seinkun.
Nú er unnið á lengri vöktum og unnið utan hefðbundins þjónustutíma.
Á heimasíðu bæjarins eru íbúar hvattir til að fara sjálfir með umfram pappír og pappa frá jólahátíðinni á endurvinnslustöð Sorpu á Breiðhellu.
Hægt er að sjá losundardagsetningar eftir heimilisföngum hér en dagatalið gerir að jafnaði ráð fyrir þriggja daga sveigjanleika. Ekki er gert ráð fyrir núverandi seinkunum í dagatalinu.
Grátunnan á að vera losuð á 14 daga fresti og blátunnan á 28 daga fresti.
Það er Terra umhverfisþjónusta sem sér um losun á sorptunnum í Hafnarfirði. Ekki náðist í fulltrúa Terra við vinnslu fréttarinnar en hún verður uppfærð um leið og svör berast.
Uppfært kl. 17.04
Fyrst og fremst erfitt vegna mikillar snjókomu


Skv. upplýsingum Guðmundar Páls Gíslasonar, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs Terru, hefur ástandið verið mjög erfitt fyrst og fremst vegna mikillar snjókomu. Segir hann bilanir í bílum hafi einhver áhrif en þau séu óveruleg miðað við færðina.
„Í mörgum tilfellum höfum við ekki komist að tunnum/ílátum fyrir snjó. Við erum að vinna mjög vel með starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar til þess að komast í gegnum verkið sem hraðast,“ segir Guðmundur og sendi Fjarðarfréttum nokkrar myndir sem sýna ástandið. Ekki kemur hins vegar fram hvenær þessar myndir voru teknar.

