fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttir100 ára afmæli Hellisgerðis var fagnað í úrhelli á laugardaginn

100 ára afmæli Hellisgerðis var fagnað í úrhelli á laugardaginn

Myndasafn

Sl. laugardag var blásið til afmælishátíðar í tilefni af 100 ára afmæli Hellisgerðis og þangað mættu áræðnir og vel klæddir bæjarbúar sem voru viðbúnir rigningu.

Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir ávarpaði gesti og sagði m.a. frá nýju skilti við aðalinnganginn um sögu og flóru garðsins.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ávarpaði gesti.

Gaflarakórinn söng fyrir viðstadda og Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék fagurlega. Djasshljómsveitin SE Sextett lék svo fyrir gesti með tónum frá 1930.

Rigningin jókst eftir sem á leið og sjaldan hafa svo margar regnhlífar sést á lofti í Hellisgerði. En Hafnarfjarðarbær bauð upp á kaffi og kleinur sem var kærkomið.

Ekki dugði minna en tvær regnhlífar.

Boðið var upp á leiðsögn um garðinn þar sem sagt var frá sögu hans.

Miklar framkvæmdir eru búnar að vera í Hellisgerði, nýr hellulagður aðalstígur í gegnum garðinn og túnið við sviðið hefur verið endurnýjað og hækkað að hluta. Ýmislegt fleira hefur verið gert en greinilegt að margt er eftir að gera til að garðurinn nái sinni fyrri reisn. Garðurinn er þó vel sóttur en verður jafnframt fyrir miklu álagi og því nauðsynlegt að vinna stöðugt að viðhaldi hans.

Í Djúpugjá

Málfundafélagið Magni hóf ræktun í Hellisgerði 1923

Sögu Hellisgerðis má rekja aftur til 15. mars árið 1922. Þá hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs framsögu á fundi hjá Málfundafélaginu Magna er hann nefndi „Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?“ Í framsögunni svaraði hann sjálfur spurningunni játandi með að koma upp skemmti- eða blómagarði sem yrði Magna til sóma og bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd innan félagsins sem hafði það hlutverk að finna heppilegan stað fyrir garðinn. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hið svokallaða „Hellisgerði“ á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar væri kjörið fyrir garðinn en þar var fyrir vísir að trjálundi.

Haustið 1922 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta félaginu í té hið umbeðna garðstæði endurgjaldslaust. Það skilyrði fylgdi þó samþykkt bæjarstjórnar að skemmti­garðurinn yrði opinn almenningi á sunnudögum á sumrin og að ef eigi yrði búið að girða svæðið af og hefja ræktun þar innan tveggja ára, missti félagið rétt sinn til landsins.

Sumarið 1923 var búið að girða Hellisgerði af og þann 24. júní var haldin þar úti­skemmtun sem hafði þann tilgang að afla fjár til starfseminnar og kynna fyrir bæjarbúum.

Við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði formlega fyrir hönd bæjarfélagsins og óskaði þeim velfarnaðar í starfinu. Skemmt­un­in þótti takast svo vel að ákveðið var að halda Jónsmessuhátíð árlega til fjáröflunar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, lúðrablástur, söngur og dvöl í gerðinu sjálfu.

Í skipulagsskrá fyrir garðinn kemur fram að upphaflegur tilgangur hans var fyrst og fremst þríþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtistaður þar sem bæjarbúar ættu kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.

Eftir að félagið Magni leið undir lok tók Hafnarfjarðarbær við rekstri Hellisgerðis og hefur garðurinn átt bæði góð og slæm tímabil.

Ítarlega samantekt á sögu Hellisgerðis má lesa hér á Ferlir.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2