Tíu íþróttafélög í Hafnarfirði fengu þriðjudaginn 7. júní afhentar 10,8 milljónir króna til styrktar barna- og unglingastarfi sínu frá Hafnarfjarðarbæ og Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík.
Þetta var fyrri úthlutun ársins af tveimur en alls nemur styrkurinn 18 milljónum króna á ári. Rio Tinto og Hafnarfjarðarbær leggja fram 9 milljónir króna hvor.
Formlegt samstarf Rio Tinto, Hafnarfjarðarbæjar og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar um að styðja við barna- og unglingastarf íþróttafélaganna í bænum hefur staðið allt frá árinu 2001.
Í fyrra var í fyrsta sinn tekinn upp jafnréttishvati sem felst í því að tvö félög fá 500.000 krónur hvort félag fyrir bestan árangur við að rétta hlut þess kyns sem hallar á varðandi fjölda iðkenda. Að þessu sinni hlutu Fimleikafélag Hafnarfjarðar og Sundfélag Hafnarfjarðar styrki fyrir bestan árangur í þessum efnum.
Skipting styrkjanna fer að öðru leyti eftir fjölda iðkenda 16 ára og yngri og menntunarstigi þjálfara. Íþróttafélögin sem hlutu styrk eru, í röð eftir fjárhæð: Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Knattspyrnufélagið Haukar, Fimleikafélagið Björk, Sundfélag Hafnarfjarðar, Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Hestamannafélagið Sörli, Golfklúbburinn Keilir, Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar og Íþróttafélagið Fjörður.