Í samkomulagi sveitarfélaganna sem standa að skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins kemur fram að uppbyggingaráform með byggingu nýrra skíðalyfta, (ný Drottning og nýr Gosi, ný notuð lyfta í Eldborgargili og toglyfta í Kerlingadal), snjóframleiðslu í Bláfjöllum og í Skálafelli og endurnýjaða stólalyftu í Skálafelli munu kosta 4.158 milljónir kr. og stefnt sé að því að framkvæmdum ljúki árið 2025.
Hlutur Hafnarfjarðarbæjar er 13,1% eða um 545 milljónir kr. en nokkur óvissa er með kostnaðartölur.
Seinkun á skíðalyftum en nýr Gosi í Suðurgili tilbúinn 2021
Upphaflegt samkomulega sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var undirritað 7. maí 2018 en bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekur fyrir á fundi sínum á morgun breytingu á því samkomulagi þar sem framkvæmdatíma er breytt, bygging nýrrar stólalyftu, Drottningar, sem átti að ljúka á þessu ári lýkur ekki fyrr en 2023, bygging nýrrar stólalyftu, Gosanum í Suðurgili, verður lokið 2021 í stað 2023. Þá verður framkvæmdum við stólalyftu í Eldborgargili lokið 2025 í stað 2024 og framkvæmdum við nýja toglyftu í Kerlingadal frestast til 2024. Þá er stefnt að því að notuð stólalyfta í Skálafelli verði tilbúin 2022 í stað 2021.
Í samkomulaginu frá 2018 var reiknað með að kostnaðurinn yrði 3.600 milljónir kr. og hefur áætlaður kostnaður því hækkað um tæp 16%. Hefur hlutur Hafnarfjarðar hækkað úr 472 millj. kr. í 545 millj. kr.
Þess er getið að kostnaðartölur beri að skoða á þessu stigi með talsverðri óvissu þar sem hvorki hönnun né endanleg verð liggi fyrir.
Um 22% af heildarkostnaðinum fer í framkvæmdir í Skálafelli.
Ekki lengur gert ráð fyrir snjóframleiðslu á suðursvæði
Í fyrsta áfanga snjóframleiðslu er gert ráð fyrir snjóframleiðslu á heimatorfunni í Bláfjöllum, Kóngsgili og á Öxlinni. Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir snjóframleiðslu í Skálafelli en í nýju samkomulagi fellur út textinn „eða í suðursvæði í Bláfjöllum“ og er því ekki lengur gert ráð fyrir snjóframleiðslu þar.
Engin snjóframleiðsla fyrir skíðagöngufólk
Þá fellur út ákvæði í grein 2.3 um skíðagönguleiðir o.fl.: „auk þess sem annar áfangi snjóframleiðslu nýtist til að treysta snjólög á gönguleiðum og lengja tímabil fyrir gönguskíðafólk“. Eftir stendur þá: „Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu á skíðagöngusvæði með uppsetningu snjógirðinga, stika og merkinga.“
Í endurgerðri áætlun er gert ráð fyrir eftirfarandi framkvæmdum:
-
- Snjóframleiðsla í Bláfjöllum – lokið 2020 – 354 millj. kr.
- Ný skíðalyfta, Gosinn – lokið 2021 – 1.035 millj. kr.
- Snjóframleiðsla í Skálafelli – lokið 2022 – 260 millj. kr.
- Ný notuð skíðalyfta Skálafell – lokið 2022 – 659 millj. kr.
- Ný skíðalyfta, Drottning – lokið 2023 – 1.162 millj. kr.
- Ný toglyfta í Kerlingadal – lokið 2024 – 146 millj. kr.
- Ný notuð skíðalyfta Eldborgargili – lokið 2025 – 510 millj. kr.
Dagleg verkefnastjórn verður í höndum verkefnastjóra, sem ráðinn verður til verkefnisins, í samráði við framkvæmdastjóra skíðasvæðanna auk aðkeyptrar þjónustu verkfræðistofa og sérstakra eftirlitsaðila sem þörf er á hverju sinni.
Þá verður að störfum verkefnahópur sem mun sinna almennu samræmingarstarfi, eftirliti og eftirfylgni með uppbyggingu á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins skv. fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun og þeim áætlunum sem síðar verða samþykktar vegna uppbyggingar á skíðasvæðunum.