Um nokkurra ára skeið hefur Hafnarfjarðarhöfn undirbúið að bjóða upp á að skip af sem flestum stærðum geti fengið rafmagn úr landi í stað þess að framleiða það með ljósavélum sem brenna olíu.
Þann 7. júní sl. voru opnuð útilboð á háspennutengibúnaði fyrir Hafnarfjarðarhöfn.
Alls bárust 3 tilboð í tilboði á evrópska efnahagssvæðinu sem Ríkiskaup sá um.
- PSW Power & Automation
- Johan Rönning
- Blueday Tecnology AS.
Á fundi hafnarstjórnar í gær var ákveðið að ganga að tilboði PSW Power & Automation sem metið var hagkvæmasta tilboðið skv. valkröfum útboðslýsingar. Tilboðið var upp á 660.000 Evrur án vsk. eða um 98 milljónir kr. mv. gengi í dag en kostnaðaráætlun var 97 milljónir kr. án vsk.
Í framhaldinu er svo stefnt að því að semja við PSW um viðbótarkaup tækja skv. útboðslýsingu.
Alls er áætlað að heildarkostnaðurinn við landtengingarnar kosti 586 milljónir kr. og á framkvæmdum að vera lokið 2024.
Hafnarfjarðarhöfn er með 207 rafmagnstengla frá 16-250 amper í Hafnarfjarðarhöfn. Skip sem þurfa mikla orku framleiða hana með díselolíu sem skv. skýrslu sem Hafnarfjarðarhöfn hefur látið gera fyrir nokkru kostaði þá 27,45 kr. hver kílówattstund (kWh). Með því að nýta landtengingu lækkar kostnaðurinn mikið eða niður í 17,20 kr. hver kWh sem áætlað var þá að útgerðir þurfi að greiða. Útsöluverð hjá Hafnarfjarðarhöfn er nú 19,8 kr. Til samanburðar má geta að almennt verð HS Orku/HS Veitna til heimila er í dag 16,37 kr. hver kWh. Á sparnaðurinn við um skip í öllum stærðum. Við þetta minnkar einnig hljóðmengun frá höfninni.
Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir einni öflugri lágspennutengingu, 1.000 kWA á Hvaleyrarbakka með tengingu við tvö skip samtímis. Verður búnaðurinn í tveimur gámum.
Búið er að semja við HS Veitur um nýja heimtaug á Hvaleyrarbakka og við Orkuvirki um háspennutengingu.
Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir háspennutengingu á bæði Hvaleyrarbakka og Suðurbakka, einu lágspennukerfi eins og fyrirhugað er á Hvaleyrarbakka og einu minna kerfi sem henti minni notendum. Eru framkvæmdir fyrirhugaðar 2023-2024. Er í þeim áfanga gert ráð fyrir tengingar fyrir skip frönsku útgerðarinnar Pontant en skip félagsins hafa heimahön í Hafnarfirði þegar þau sigla hér við land.
Í þriðja áfanga er svo gert fyrir lágspennukerfi á Suðurbakka og í Straumsvíkurhöfn.
Í fjórða áfanga er gert ráð fyrir tvö tveggja megavoltampera háspennukerfi á Haleyrarbakka. Er gert ráð fyrir því að þróunin verði þannig að skip nýti sér í auknum mæli háspennu til að að minnka umfang rafmagnskafla.
Ákall um stuðning
Í samtali við Fjarðarfréttir segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri að litið sé á þetta sem langtímafjárfestingu af umhverfissjónarmiðum. Telur hann að ríkissjóður þurfi að koma á móts við þær hafnir sem eru að leggja í mikinn kostnað til að minnka mengun í höfnum. Einhverjir styrkir hafi verið í boði en séu smáaurar m.v. þann kostnað sem leggja þurfi út í.
Aðspurður segir hann að ekki sé gert ráð fyrir að tekjur af sölu á rafmagni til skipa nái að greiða heildarfjárfestinguna niður. Ítrekaði hann að líta þurfi á málið í heild sem umhverfisverkefni.