Hafnfirðingurinn Elías Ægir Jónasson, eða Elli Jónasar eins og margir þekkja hann var valinn þjálfari ársins í Garðabæ nú fyrir stuttu en hann er barna- og unglingaþjálfari Stjörnunnar í handknattleik.
Elli hefur þjálfað hjá Stjörnunni frá 2017 en hann hefur varið ævinni í að þjálfa börn og unglinga með góðum árangri og lengst af hjá Haukum. og er svo sannarlega ekki hættur þó hann verði brátt 71. árs gamall.
Elli tók við 5. flokki drengja og hefur fylgt yngri hópnum upp í 3. flokk með frábærum árangri þar sem margir titlar hafa unnist. Flokkurinn er nú einn fjölmennasti 3. flokkur í áraraðir hjá félaginu og leynast þar án efa margir af framtíðarleikmönnum félagsins.
Elli hefur haldið hópnum einstaklega vel saman með afar öflugu foreldrastarfi þar sem óhætt er að fullyrða að fáir þjálfarar hafi lagt aðra eins natni við að virkja foreldrana í starfinu. Um leið er hann óþrjótandi í að finna verkefni og æfingaferðir við hæfi fyrir hópinn. Hann nær þannig að viðhalda áhuga drengjanna á íþróttinni, sem er afar mikilvægt fyrir krakka á þeim aldri þegar brotthvarf er einna mest úr íþróttum.
Elías var auðmjúkur eftir athöfnina og skrfaði á Facebook síðu sína: „Auðmjúkur og þakklátur fyrir þennan heiður sem mér var sýndur í dag sem annar þjálfara ársins í Garðabæ 2020. Þetta er sannarlega afrakstur samvinnu foreldra og leikmanna.“
Elli starfar einnig sem skóla- og frístundaliði í Víðistaðaskóla.
Íris Ósk Hafþórsdóttir, knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ, var einnig valin þjálfari ársins í Garðabæ.