Golfbílar eru hvergi skilgreindir í umferðarlögum og falla líklega undir skilgreininguna létt bifhjól.
Aðeins létt bifhjóli í flokki I má aka á gangstígum en hvergi er getið um stærð þeirra en golfbílar geta verið nokkuð stórir enda gert ráð fyrir að tveir geti setið hlið við hlið á þeim.
Það vakti því furðu að sjá eldra par aka á gangstéttum bæjarins á stórum og greinilega hraðskreiðum golfbíl sem næstum fyllti út í gangstéttina.
Hingað til hafa golfbílar ekki verið skráðir en þau ökutæki sem mega vera óskráð á gangstéttum eru reiðhjól skv. 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Samkvæmt c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna eru önnur lítil vélknúin ökutæki leyfð á gangstéttum, svosem rafknúin hlaupahjól og segway.
Golfbílar falla ekki undir framangreindar skilgreiningar og er akstur þeirra því óheimill á gangstéttum, segir Sædís Birta Barkardóttir, lögfræðingur hjá Samgöngustofu í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta.
Úr umferðarlögum:
Bifhjól: Vélknúið ökutæki sem ekki telst bifreið, dráttarvél eða torfærutæki og er aðallega ætlað til farþega- eða farmflutninga, á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, eða á þremur eða fleiri hjólum með sprengirými yfir 50 sm 3 sé það búið brunahreyfli og hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.
Létt bifhjól: Vélknúið ökutæki á tveimur, þremur eða fjórum hjólum sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst. og er með:
a. sprengirými sem er ekki yfir 50 sm 3 sé það búið brunahreyfli eða
b. samfellt hámarksafl sem er ekki yfir 4 kW sé það búið rafhreyfli.
Létt bifhjól greinast í létt bifhjól í flokki I sem er ekki hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. Ákvæði laganna um bifhjól eiga einnig við um létt bifhjól nema annað sé tekið fram.
45. gr. Almennar reglur um akstur bifhjóla.
Bifhjóli má ekki aka samhliða öðru ökutæki, nema þegar ekið er samhliða öðru bifhjóli á tveimur hjólum, án hliðarvagns, á sömu akrein í þéttbýli, enda sé hámarkshraði þar eigi meiri en 50 km á klst. og aðstæður leyfa slíkt.
Á bifhjóli og hliðarvagni þess má ekki flytja fleiri farþega en ökutækið er ætlað til. Farþega á bifhjólinu er óheimilt að sitja fyrir framan ökumann.
Óheimilt er að flytja farþega á léttu bifhjóli nema ökumaður sé 20 ára eða eldri, enda sé bifhjólið til þess ætlað.
Barn sjö ára eða yngra sem er farþegi á bifhjóli skal sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Barn eldra en sjö ára skal ná með fætur niður að fóthvílum bifhjóls, en að öðrum kosti á 1. málsl. við. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um gerð og notkun viðurkennds öryggis- og verndarbúnaðar fyrir börn sem eru farþegar á bifhjóli.
Ökumaður og farþegi bifhjóls skulu að jafnaði hafa báða fætur á fótstigum eða fóthvílum og ökumaður báðar hendur á stýri og að jafnaði bæði (öll) hjól bifhjólsins á vegi þegar það er á ferð.
46. gr. Sérreglur um akstur léttra bifhjóla í flokki I.
Léttum bifhjólum í flokki I má eigi aka samsíða.
Heimilt er að aka léttu bifhjóli í flokki I á hjólastíg, hjólarein, gangstétt, gangbraut, göngustíg og göngugötu, enda valdi það ekki hættu eða óþægindum eða veghaldari hefur ekki lagt við því bann. Ef hjólastígur er samhliða göngustíg er einungis heimilt að aka á hjólastígnum. Ökumaður á gangstétt, gangbraut, göngustíg eða göngugötu skal víkja fyrir gangandi vegfarendum. Hann skal gæta ýtrustu varkárni og ekki aka hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um. Hann skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.
Ef ökumaður á léttu bifhjóli í flokki I á gangstétt þverar akbraut skal hann gæta að því að aka eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða. Sama á við um ökumann á léttu bifhjóli í flokki I sem þverar akbraut á gangbraut.
Að öðru leyti eiga reglur 45. gr. einnig við um akstur léttra bifhjóla í flokki I.