fbpx
Fimmtudagur, janúar 9, 2025
target="_blank"
HeimFréttirÁkvörðun um byggingu flugvallar í Hvassahrauni tekin fyrir árslok 2024

Ákvörðun um byggingu flugvallar í Hvassahrauni tekin fyrir árslok 2024

Vonast til að flugvöllurinn geti verið innanlandsflugvöllur og varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur hafa undirritað samkomulag sem felur í sér að hrinda í framkvæmd verkefnum og nauðsynlegum rannsóknum í samræmi við tillögur í skýrslu stýrihóps um framtíðarskipan flugvallarmála á suðvesturhorni landsins.

Samkomulagið felur í sér að ríki og borg hefji samstarf um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni með það að markmiði að fullkanna kosti á því að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug.

Er gert ráð fyrir að hvor aðili leggi fram 100 milljónir kr. til fjármögnunar þeirra nauðsynlegu rannsókna sem gerðar verða á næstu tveimur árum.

Ef flugvöllur í Hvassahrauni reynist ekki vænlegur kostur að athugunum loknum er gert ráð fyrir að aðilar taki upp viðræður um málið að nýju.

Engin aðkoma bæjaryfirvalda í Hafnarfirði eða í Vogum

Það er nokkuð sérstakt að hvorki er minnst á bæjaryfirvöld í Vogum eða í Hafnarfirði og virðast þau hvergi koma að málinu en hugmynd að flugvallarstæði er í landi Voga rétt við bæjarmörk Hafnarfjarðar og hefði flugvöllur á þessum stað mikil áhrif í Hafnarfirði.

Eina skiptið sem flugvöllur í Hvassahrauni hefur komið til umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var 12. júní sl. er Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar lagði til að úttekt yrði gerð á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar í Hvassahrauni á Hafnarfjörð.

Málinu var vísað til bæjarráðs sem tók það til umræðu 20. júní sl. þar sem bæjarstjóra var falið að taka saman gögn og leita upplýsinga um kannanir og úttektir sem gerðar hafa verið og eru í vinnslu af hálfu ríkisins og annarra aðila á fýsileika flugvallar í Hvassahrauni en ekkert hefur heyrst af því síðan.

Uppfært kl. 16:65

Engar formleg erindi hafa borist Sveitarfélaginu Vogum um flugvöll í Hvassahrauni að sögn Ásgeirs Eiríkssonar bæjarstjóra. Sagði hann í samtali við Fjarðarfréttir að í gegnum tíðina hafi óformleg samskipti hafi þó átt sér stað, t.d. um skipulagsmál. Sagði hann jafnframt að fram hafi komið á samstarfsvettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum óánægja með að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Ákvörðun fyrir lok árs 2024

Ef rannsóknir gefa tilefni til að halda áfram undirbúningi flugvallar í Hvassahrauni er stefnt að því að taka ákvörðun hvort af byggingu flugvallarins verði fyrir lok árs 2024.

Svona gæti millilanda- og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni litið út skv. skýrslu starfshópsins. Staðsetning þó ónákvæm.

Rekstraröryggi í Vatnsmýri tryggt

Í samkomulaginu eru aðilar sammála um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Í samkomulaginu er miðað við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar. Þá lýsir Reykjavíkurborg jafnframt yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra:
„Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samkomulagi við borgina um að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri þar til annar jafngóður eða betri kostur verður tilbúinn. Það skapar öryggi fyrir innanlandsflugið og heldur þeirri góðu tengingu sem verður að vera milli landsbyggðar og höfuðborgar. Það er einnig ljóst að Suðurnesin verða áfram miðpunktur millilandaflugs á Íslandi og uppbyggingarsvæði fyrir þá mikilvægu starfsemi sem flugið er fyrir Íslendinga,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri:
„Það hefur verið mikill styrkur að því að allir lykilhagsmunaaðilar hafa átt sæti í nefndinni og komið að málinu. Óopinbert markmið nefndarinnar var að vera síðasta nefndin um flugvallarmálið. Ég bind miklar vonir við að það hafi tekist. Nú er kominn grundvöllur til að taka skýra stefnu í málinu og hefja rannsóknir á nýju flugvallarstæði í Hvassahrauni.“

Samkomulagið gerir ráð fyrir að skipa starfshóp sem ber ábyrgð á nánari útfærslu verkefnisins með fulltrúum ríkis, borgar og sveitarfélögum á Suðurnesjum. Starfshópurinn hefur umsjón með greiningarvinnu í samræmi við tillögur skýrslu starfshópsins ásamt nauðsynlegum veðurmælingum.

Skýrsla stýrihóps um flugvallakosti

Stýrihópurinn, sem var skipaður vorið 2018 til að greina framtíðarskipan flugvallamála á suðvesturhorninu, hefur skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hópnum var falið að kostnaðargreina helstu valkosti sem hafa komið til greina en það eru flugvellir í Vatnsmýri og í Keflavík og mögulegur nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Í skýrslunni eru lagðar fram fimm tillögur sem er ætlað að auðvelda umræðu og styðja við ákvarðanatöku um uppbyggingu þeirrar þjónustu sem stjórnvöld vilja stuðla að fyrir innanlands- og millilandaflug.

Meginforsenda í vinnu stýrihópsins var að tveir flugvellir yrðu á suðvesturhorni landsins þannig að þar verði varaflugvöllur fyrir millilanda- og innanlandsflug líkt og verið hefur um áratuga skeið. Hópurinn kynnir í skýrslunni niðurstöður kostnaðargreiningar og leggur fram fimm megintillögur.

1. Millilandaflug áfram í Keflavík

Haldið verði áfram að byggja upp miðstöð millilandaflugs í Keflavík í samræmi við fyrri áætlanir. Kostnaðarmunur er afgerandi milli kosta þar sem kostnaður við nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni er áætlaður rúmlega 300 milljarðar kr. en kostnaður við áframhaldandi uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli rúmir 160 milljarðar kr. Ef ráðist yrði í nýjan flugvöll í Hvassahrauni þyrfti engu að síður samhliða að halda áfram einhverri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

2. Hvassahraun komi áfram til greina

Einnig er lagt er til að gerðar verði ráðstafanir til að halda opnum möguleikanum á flugvelli í Hvassahrauni. Áætlað er að fullbúinn innanlands- og varaflugvöllur í Hvassahrauni, sem jafnframt þjónaði sem kennslu- og einkaflugvöllur, kosti um 44 milljarða kr. en kostnaður við nauðsynlega uppbyggingu í Vatnsmýrinni er um 25 milljarðar kr. Frekari þróun flugvallar í Vatnsmýri er erfið vegna byggðar sem þrengt hefur að starfseminni.  Þær greiningar sem til eru benda til að flutningur innanlandsflugs úr Vatnsmýri til Keflavíkur sé ekki vænlegur kostur við núverandi aðstæður en lagt er til að greind verði áhrif þess að flytja miðstöð innanlandsflugs úr Vatnsmýri í Hvassahraun.

3. Ákvörðun tekin eftir veðurmælingar

Áður en hægt er að taka endanlega ákvörðun um fýsileika þess að byggja flugvöll í Hvassahrauni þarf að ljúka við flugprófanir og veðurmælingar sem taka a.m.k. tvö ár og mögulega lengri tíma.

4. Greiningarvinna samhliða veðurmælingum

Lagt er til að samhliða veðurmælingum verði tíminn nýttur til að:

  • Greina möguleika og kostnað við greiðar og fljótvirkar samgöngur milli miðbæjar Reykjavíkur og Hvassahrauns og milli Hvassahrauns og Keflavíkur.
  • Greina áhrif af færslu innanlandsflugs úr Vatnsmýri í Hvassahraun.
  • Greina mögulegar staðsetningar á flugvelli fyrir kennslu-, æfinga- og einkaflug með það í huga hvar slíkum flugvelli væri best fyrir komið, hvað hann kostaði og hve mikil samlegð fengist með alhliða innanlandsflugvelli.
  • Greina nothæfisstuðla allra millilandaflugvalla og kerfisins í heild, setja viðmið um það og byggja kröfur til varaflugvallar á því.
  • Samgönguyfirvöld hefji viðræður við Reykjavíkurborg, sveitarfélögin á Suðurnesjum og aðra hlutaðeigandi aðila um hugsanlega færslu á flugvallastarfsemi úr Vatnsmýri í Hvassahraun, auk þess sem tryggja þarf áframhaldandi rekstur og umbætur flugvallarins í Vatnsmýri uns niðurstaða ofangreindra aðila liggur fyrir.

5. Egilsstaðaflugvöllur endurbættur sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Lagt er til að Egilsstaðaflugvöllur verði endurbættur sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug um Ísland með það að markmiði að koma megi allt að 15 fleiri vélum fyrir á flugvellinum með því að gerð verði akstursbraut með fram flugbrautinni.

Skipan stýrihóps

Í stýrihópnum sátu eftirtaldir: Eyjólfur Árni Rafnsson verkfræðingur, sem jafnframt var formaður hópsins, Elín Árnadóttir frá Isavia, Birna Ósk Einarsdóttir frá Icelandair Group, Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Reiknistofu bankanna (við skipun hjá WOW air), Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar.

Með stýrihópnum störfuðu Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Gunnar Örn Indriðason, lögfræðingur hjá ráðuneytinu og Friðfinnur Skaftason, verkfræðingur hjá ráðuneytinu.

Flugvallakostir skýrsla nóvember 2019

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2