Alvarleg staða er komin upp í álverinu í Straumsvík þegar forstjóri Rio Tinto Aluminium segir að álverið sé óarðbært og sé ekki samkeppnisfært vegna hás raforkukostnaðar.
Segir Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto Aluminium, í tilkynningu að Rio Tinto muni kanna þær leiðir sem álverinu eru færar með það að markmiði að gera rekstur ISAL fjárhagslega sjálfbæran á ný.
„Við höfum unnið markvisst að því að bæta afkomu ISAL. Álverið er engu að síður óarðbært og er ekki samkeppnishæft í krefjandi markaðsaðstæðum vegna hás raforkukostnaðar,” segir Alf Barrios.
Segir hann að unnið verði náið með þeim sem eiga gagnkvæma hagsmuni að því að treysta framtíð ISAL, þ.m.t. ríkisstjórn, Landsvirkjun, starfsfólki, stéttarfélögum og sveitarfélaginu.
Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun. Endurskoðunarferlinu verður lokið á fyrri helmingi árs 2020.
Gert er ráð fyrir að rekstur ISAL í krefjandi aðstæðum í áliðnaði verði áfram óarðbær til skemmri og meðallangs tíma sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi.
Eins og áður hefur verið greint frá var, vegna taprekstrar, ákveðið að minnka framleiðsluna á þessu ári og var Landsvirkjun tilkynnt að álverið myndi aðeins kaupa 85% af áætlaðri rafmagnkaupum.
Tap hefur verið á rekstri álversins síðustu ár og nam tapið 42,1 milljónum dollara árið 2018 og 3,3 milljónum dollara árið 2017.
Um 500 manns starfa í álverinu og álverið kaupir gríðarlega mikla þjónustu í Hafnarfirði og víðar og það yrði mikið áfall ef álverið lokaði.
Í morgun boðaði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi alla starfsmenn til fundar til að kynna þeim stöðuna í málinu.