fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAlzheimersamtökin og Hafnarfjarðarbær í samstarf

Alzheimersamtökin og Hafnarfjarðarbær í samstarf

Hafnarfjarðarbær og Alzheimersamtökin skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu um innleiðingu á samfélagi sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun og aðstandendur þeirra.

Þannig mun Hafnarfjarðarbær, með faglegri aðstoð og öflugum stuðningi Alzheimersamtakanna, markvisst varða leið þeirra sem eru með heilabilun með því að ýta undir vitund og þekkingu hvoru tveggja starfsfólks og íbúa sveitarfélagsins.

Aukin vitund allra ýtir undir vellíðan og öryggi þessa viðkvæma hóps en talið er að 4.000-5.000 einstaklingar búi við heilabilun á Íslandi, þar af u.þ.b. 250 manns undir 65 ára aldri. Búast má við verulegri fjölgun samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar.

Undirritun og kynningarfundur

Til að marka upphaf verkefnisins var fámennur kynningarfundur haldinn í Bæjarbíói þar sem flutt voru erindi fagaðila um markmið, tilgang og mikilvægi verkefnisins auk þess sem Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Eliza Reid forsetafrú fluttu stutt erindi en Frú Eliza Reid hefur verið verndari Alzheimersamtakanna um árabil.

Yfirlýst markmið verkefnisins er að auka vitund og þekkingu allra á heilabilunarsjúkdómum og byggja upp samfélag sem sýnir þeim sem eru með heilabilun og fjölskyldum þeirra virðingu, skilning og stuðning.

Öflug fræðsla fyrir alla áhugasama

Á næstu vikum og mánuðum verður boðið upp á fræðslu fyrir m.a. starfsfólk stofnana og sundlauga sveitarfélagsins, áhugasama íbúa og starfsfólk verslana og annarra þjónustufyrirtækja í bænum um heilabilunarsjúkdóma og styðjandi samfélag.

Auk þess sem auglýst verður eftir áhugasömum leiðbeinendum úr hópi starfsfólks og íbúa sem munu sitja námskeið og fá fræðsluefni til að bera áfram til sinna hópa og/eða samstarfsfélaga. Þannig mun Hafnarfjarðarbær verða leiðandi í því að fræða og þjálfa m.a. sitt starfsfólk og íbúa um heilabilunarsjúkdóma og viðeigandi stuðning.

Markmiðið er að allar starfsstöðvar Hafnarfjarðarbæjar verði „styðjandi vinnustaðir“ en til að hljóta viðurkenninguna þarf a.m.k. 50% alls starfsfólks á starfsstöð að hafa hlotið viðeigandi fræðslu.

Þjónustumiðstöð í gamla St. Jósefsspítala

Alzheimersamtökin vinna að því þessa dagana að koma á fót þjónustumiðstöð í Lífsgæðasetri St. Jó. fyrir þá sem greinst hafa með heilabilun og aðstandendur þeirra og  ekki síst þá sem greinast ungir að aldri.

Vonir standa til þess að þjónustumiðstöð verði opnuð í haust.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2