Gunnar Björn Guðmundsson.

Nýjasta kvikmynd hafnfirska leikstjórans Gunnars Björns Guðmundssonar, Amma Hófí, verður frumsýnd Laugarásbíói á morgun, miðvikudag og á föstudag fer hún í sýningu um allt land.

Myndin fjallar um eldri borgana Hófí og Pétur sem búa á Sólvangi en eru orðin leið á aðbúnaðinum þar. Þau grípa til sinna ráða og ræna banka til að eiga efni á lítilli íbúð en lenda þó í ýmsum uppákomum á leiðinni.

Fjarðarfréttir mættu á sérstaka forsýningu í Bæjarbíói í kvöld en það þótti vel við hæfi að forsýna myndina í Bæjarbíói þar sem myndin er að langmestum hluta tekin upp í Hafnarfirði og nokkrir Hafnfirðingar leika hlutverk í myndinni.

Rósa Guðbjartsdóttir ávarpaði gesti í upphafi myndar.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ávarpaði bíógesti og var að vonum ánægð með að Hafnarfjörður hafi fengið að skipa svo stórt hlutverk í þessari mynd. Leikstjórinn, Gunnar Björn, kynnti myndina stuttlega áður en sýning hófst en lítil viðhöfn var við þessa forsýningu í troðfullu Bæjarbíói.

Aðalleikarar myndarinnar, Edda Björgvinsdóttir í hlutverki Hófíar og Þórhallur Sigurðsson í hlutverki Péturs koma sögunni vel til skila og fá áhorfendur til að brosa og skella upp úr.

Myndin er afskaplega vel heppnuð gamanmynd en um leið er að finna í henni ákveðnar ádeilur á samfélag okkar án þess að það sé aðalatriðið í myndinni. Eins og í öðrum góðum gamanmyndum er flækjustigið töluvert og þó að margt sér fyrirsjáanlegt kom endirinn blaðamanni Fjarðarfrétta skemmtilega á óvart.

Af viðbrögðum bíógesta sem horfðu á myndina að dæma og einnig eftir hana er alveg ljóst að hér er á ferð sprenghlægileg gamanmynd með skemmtilegum söguþræði og fólk var almennt mjög ánægt.

Mun betri en margar Netflix myndirnar, kom upp í hugann og getur Gunnar Björn og hans lið verið mjög ánægt.

Sem fyrr segir fer myndin í almenna dreifingu um allt land á föstudag og vonandi taka aðrir landsmenn myndinni jafnvel og Hafnfirðingar sem nutu þess að fá fallegar kvikmyndasenur úr Hafnarfirði í kaupbæti.

Blaðamenn Fjarðarfrétta sem mættu á forsýninguna gefa myndinni 4,5 stjörnur af 5.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here