Kynntar voru á fundi bæjarráðs í vikunni niðurstöður könnunar sem Gallup hefur gert á þjónustu sveitarfélaganna 2016. Voru niðurstöðurnar byggðar á 448 svörum 18 ára og eldri en álíka könnun í 19 stærstu sveitarfélögum landsins hefur verið gerð síðan 2008.
Í niðurstöðum fyrir Hafnarfjörð er mest ánægja með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Var skorhlutfallið 4,3 af 5 mögulegum og hækkaði úr 4,1 2015 en þá hafði það aldrei verið svo lágt frá 2008 en þá var hlutfallið 4,5 þegar 95% svarenda voru mjög ánægðir eða frekar ánægðir. Árið 2016 var hlutfallið 88% eftir að hafa farið niður í 81% árið 2015.
Marktækur munur var á fjórum atriðum
Almennt var ánægjan meiri en árið 2015 en þá var ánægja með minnsta móti í Hafnarfirði og er ánægjan 2016 t.d. almennt minni en árið 2008.
- Fleiri voru ánægðir með bæjarfélagið sem stað til að búa á, 4,3 úr 4,1
- Ánægja með þjónustu sem sveitarfélagið veitir almennt, metið út frá eigin reynslu og álitið jókst úr 3,7 úr 3,5
- Ánægja jókst með þjónustu við barnafjölskyldur úr 3,1 í 3,3.
- Ánægja með þjónustu við fatlað fólk jókst úr 3,0 í 3,0.
Ánægðari með sveitarfélagið sem stað til að búa á og með íþróttaaðstöðuna
Þegar ánægjan er borin saman við hin sveitarfélögin þá er fólk örlítið ánægðari með sveitarfélagið sem stað til að búa á en fólk er almennt í viðmiðunarsveitarfélögunum og með aðstöðu til íþróttiðkunar.
Hins vegar erum við óánægðari með eftirfarandi:
- Skipulagsmál -0,1
- Þjónustu við barnafjölskyldur -0,2
- Þjónustu grunnskóla -0,1
- Þjónustu leikskóla -0,1
- Þjónustu við eldri borgara -,03
- Þjónustu við fatlað fólk -0,1
- Hvernig sveitarfélagið sinni menningarmálum -0,1
- Sorphirðu -0,1
Bæta þarf samgöngur, grunnskóla og sorphirðu
Þegar spurt er um það hvað sveitarfélagið helst þurfi að bæta vega samgöngumál þar hæst og koma grunnskólamál og endurvinnsla/sorphirða þar næst á eftir. Þá var nefnd þjónusta við aldraða, umhverfismál og stjórnsýsla.
Niðurstöðurnar má sjá í heild sinni hér.