fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimFréttirAtvinnulífÁnægjulegt að taka þátt í að móta farsælt samfélag í Hamranesinu

Ánægjulegt að taka þátt í að móta farsælt samfélag í Hamranesinu

Áætlaður íbúafjöldi í hverfinu fullbyggðu er um 4.750 manns

Rífandi gangur er í uppbyggingu fjölbýlishúsa í Hamranesi, nýjasta hverfinu í Hafnarfirði, sem rís hratt syðst í bænum, sunnan Skarðshlíðarhverfis og Vallahverfis. Gert er ráð fyrir alls um 1.900 íbúðum í hverfinu fullbyggðu og nú þegar eru yfir 1.600 íbúðir ýmist tilbúnar eða á byggingarstigi.

Allar lóðir í Hamraneshverfinu hafa þegar verið seldar en lóðaframkvæmdir hófust í ársbyrjun 2021. Áætlaður íbúafjöldi í hverfinu fullbyggðu er um 4.750 manns, miðað við þann stuðul að íbúar í hverri eign séu 2,5. Fyrstu íbúarnir eru þegar fluttir inn í fjölmörg húsanna og hefur sala íbúða gengið betur síðustu mánuðina en margir höfðu þorað að vona, þökk sé hlutdeildarlánum sem eru í boði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði.

Útsýnið er frábært úr mörgum íbúðanna sem eru að rísa í Hamraneshverfinu og stutt í ósnortna náttúru.

815 íbúðir í 28 húsum

Ný fjölbýlishús kalla lögum samkvæmt á stofnun húsfélaga og þar hefur Eignaumsjón mætt sterk til leiks í Hamraneshverfinu, því félagið er þegar búið að stofna 12 húsfélög fyrir 28 hús á svæðinu þar sem eru samtals 815 íbúðir, eða nærri helmingur þeirra íbúða sem eru ýmist tilbúnar eða á byggingarstigi í Hamraneshverfinu.

Páll Þór Ármann er yfir sölu- og samskiptum hjá Eignaumsjón og býr að margra ára reynslu við stofnun og innleiðingu nýrra húsfélaga.

„Það er ánægjulegt að fylgjast með þessari glæsilegu og hröðu uppbyggingu í Hamranesinu og taka þátt í stofnun þessara nýju húsfélaga þar og leggja þannig lið, bæði lóðarhöfum og íbúðareigendum, við að móta farsælt samfélag á byggingarreitnum,“ segir Páll Þór Ármann, sem er yfir sölu- og samskiptum hjá Eignaumsjón og hefur til fjölda ára annast stofnun og innleiðingu nýrra húsfélaga hjá Eignaumsjón.

Brú milli byggingaraðila og kaupenda

Undanfarin ár hefur stofnun húsfélaga í sívaxandi mæli verið að frumkvæði byggingaraðila þegar sala íbúða er hafin og íbúar að fara að flytja inn. „Við höfum leyft okkur að kalla þessa þjónustu okkar „brú“ á milli byggingaraðila/seljenda annars vegar og kaupenda nýrra eigna hins vegar og er allra hagur,“ segir Páll. „Byggingaraðilar spara sér bæði fyrirhöfn og tíma sem færi annars í rekstur og daglega umhirðu sameignar nýbyggingarinnar og íbúðareigendur flytja inn í hús þar sem er búið að „ramma inn“ rekstur sameignarinnar og starfsemi húsfélagsins með samþykktum og húsreglum.“

Deildaskipt heildarhúsfélög

Í nýjum og stærri fjölbýlishúsum lætur Eignaumsjón alla jafnan deildaskipt heildarhúsfélag halda utan um fasteignir, sem samkvæmt skilgreiningu fjöleignarhúsalaganna mynda saman eitt húsfélag.

„Þannig getur t.d. sameiginlegt ytra byrði, lóð og/eða bílageymsla tengt saman fleiri hús eða fasteignir í eitt húsfélag. Til dæmis eru þessi 12 húsfélög sem við erum búin að stofna í Hamraneshverfinu mjög mismunandi að stærð, eða allt frá 12 íbúða húsfélagi í einu húsi upp í 157 íbúða húsfélag í sjö húsum/stigagöngum,“ segir Páll og áréttar að almennt skili það hagræði fyrir eigendur að láta eitt deildaskipt heildarfélag halda utan um allt sem snýr að rekstri sameignar húsfélagsins. Jafnframt er tryggt að öll starfsemi sem tengist húsfélaginu sé römmuð inn með skýrum samþykktum og uppgjörsreglum, bæði fyrir félagið í heild sem og milli deilda/stigaganga.

„Heildarfélag tryggir betra jafnvægi í rekstri til lengri tíma, tryggir samræmt utanumhald og auðveldar hagræðingu, bæði í innheimtu, öflun þjónustu o.fl. Stjórnun húsfélagsins verður líka styrkari með eina stjórn, sem skipuð er fulltrúum úr öllum deildum húsfélagsins, í stað þess að mörg félög og margar stjórnir komi að málum,“ segir Páll að lokum.

Uppbygging Hamraneshverfisins hefur verð hröð frá því lóðaframkvæmdir hófust í byrjun árs 2021 en gert er ráð fyrir um 1.900 íbúðum í hverfinu fullbyggðu.

Greinin var birt í 4. tbl. Fjarðarfrétta, 11. apríl 2024

Frítt Fjarðarfrétta-app í símann þinn!

Hægt er að sækja app í þinn síma  í Play Store í Android símum og í Apps store í iOS símum. Frítt er að sækja appið og lesa Fjarðarfréttir!

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2