Nú fyrir skömmu voru þau Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Keili kjörin íþróttakarl og íþróttakona Hafnarfjarðar 2020 en bæði eru atvinnumenn í sinni íþrótt.
Var athöfnin haldin í Bungalowinu og streymt á netinu og hátíðin í engri líkingu við það sem hún hefur verið vegna sóttvarnarreglna.
Eftirfarandi voru tilnefnd til íþróttakonu og íþróttakarls Hafnarfjarðar:
- Anton Sveinn McKee, SH – sund
- Axel Bóasson, Keilir – golf
- Britney Cots, FH – handknattleikur
- Erla Björg Hafsteinsdóttir, BH – borðtennis
- Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keilir – golf
- Heiða Karen Fylkisdóttir, AÍH – akstursíþróttir
- Hilmar Örn Jónsson, FH – frjálsíþróttir
- Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, SH – sund
- Kári Jónsson, Haukar – körfuboltaleikur
- Nicoló Barbizi, DÍH – dans
- Róbert Ingi Huldarsson, BH – borðtennis
- Róbert Ísak Jónsson, Fjörður – sund
- Sara Rós Jakobsdóttir, DÍH – dans
- Sól Kristínardóttir Mixa, BH – borðtennis
- Steven Lennon, FH – knattspyrna
- Tanya Jóhannsdóttir, Fjörður – sund
- Valur Jóhann Vífilsson, KK – akstursíþróttir
- Vikar Karl Sigurjónsson, AÍH – akstursíþróttir
- Þóra Kristín Jónsdóttir, Haukar – körfuboltaleikur
- Þórdís Eva Steinsdóttir, FH – frjálsíþróttir
Anton Sveinn McKee, SH – sund
Anton Sveinn McKee er fyrstur Íslendinga til að tryggja sér farseðil á Ólympíuleikana í Tókýó. Hann var einnig búinn að næla sér í keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í sundi sem átti að fara fram í maí í Búdapest en var frestað til 2021. Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í sundi 2020, hann varð einni íslandsmeistari í boðsundi. Hann setti þrjú Íslandsmet, sem voru einni ný Norðurlandamet í 200 m og 100 m bringusundi.
Anton var valinn inn í lið sem keppir í ISL (International Swim League), sem er mótaröð sem hóf göngu sína fyrir ári síðan og er ný og fyrsta atvinnumanna mótaröðin í sundi í heiminum. Í þessari mótaröð keppir hann fyrir Toronto Titans og allir sundmenn í þessari mótaröð fengu tækifæri til að keppa í fimm vikna mótaröð sem haldin var nú í október og nóvember. Keppendur mættu til Búdapest og voru sett í sóttvarnarhólf til að hægt væri að tryggja öryggi allra sem koma að mótinu. Þar vann hann í þrígang 200 og 100 m bringusund og setti þar einnig metin sem minnst var á hér áðan. Anton æfir nú yfir veturinn í Blacksburg, Virginia með atvinnumanna liðinu Virginia Tech University. Hann keppir og æfir með SH í öllum sínum fríum og heimsóknum til Íslands. Á meðan hann æfir erlendis fær hann einnig styrktar æfingaáætlun sendar frá styrktarþjálfara SH.
Anton Sveinn var nýlega útnefndur Sundmaður ársins af Sundsambandi Íslands.
Viðtal við Anton Svein verður birt hér á Fjarðarfréttum síðar í kvöld.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keilir – golf
Guðrún Brá hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins í mörg ár og er ein af bestu kylfingum landsins.
Guðrún Brá er Íslandsmeistari kvenna í golfi fyrir árið 2020 og hefur sigrað þrjú ár í röð. Hún sigraði á Íslandsmótinu í höggleik í Mosfellsbæ í sumar. Guðrún Brá lék á 71-72-72-74 eða á 289 höggum eða einu högg yfir pari.
Guðrún Brá varð einnig stigameistari GSÍ í annað sinn. Hún keppti á öllum fimm stigamótum ársins hér heima og sigraði á þremur þeirra, varð einu sinni í 3. sæti og einu sinni í fjórða sæti.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er atvinnukylfingur í golfi og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún er með fullan þátttökurétt á árinu og einnig á næsta ári. Vegna aðstæðna í heiminum voru ekki mörg atvinnumannamót sem hægt var að leika á í ár. Besti árangur hennar var 39. sæti á móti í Sádi Arabíu í nóvember.
Guðrún Brá hefur tekið þátt í tíu mótum á árinu og vann sér inn þátttöku á lokamóti á Evrópumótaröðinni á Spáni í lok nóvember.
Guðrún er í 125. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar og er í sæti 949 á heimslista atvinnukvenna í golfi. Guðrún Brá er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.
Viðtal við Guðrúnu Brá verður birt hér á Fjarðarfréttum síðar í kvöld.
Lið ársins er meistaraflokkur FH karla og kvenna í frjálsum íþróttum
Eftirtalin lið voru tilnefnd til íþróttaliðs ársins:
- Meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum íþróttum, FH
- Lið 15 ára og yngri drengja, Keilir
- Lið 50 ára og eldri kvenna, Keilir
- Kvennalið í áhaldafimleikum, Björk
Karla- og kvennalið frjálsíþróttadeildar FH stóð sig frábærlega á árinu 2020.
Liðið sigraði í öllum frjálsíþróttamótum sem keppt var til stiga á árinu. Þá vann liðið til fjölda titla bæði á Meistaramótum sem og í Bikarkeppni.
Meistaramót Íslands innanhúss: Karlaliðið sigraði með fjórum stigum og kvennaliðið sigraði með 5 stigum. Sameiginlegt lið karla- og kvenna sigraði svo á mótinu og varð félagið Íslandsmeistari félagsliða innanhúss 2020 með níu stigum. FH sigraði í 11 greinum á mótinu næsta lið sigraði í fjórum greinum.
Bikarkeppni FRI Innanhúss: Kvennalið FH sigraði í Bikarkeppni FRÍ innanhúss með 2 stigum, karlalið FH sigraði með 3 stigum. Karla- og kvennalið FH sigraði því keppnina samanlagt með 5 stigum og varð Bikarmeistari Íslands í frjálsíþróttum innanhúss. FH sigraði í 8 greinum af 16 á mótinu.
Meistaramót Íslands utanhúss: Meistaramótið fór fram á Akureyri og vegna Covid 19 var ákveðið að ekki skildi keppt til stiga á mótinu. FH hlaut ásamt ÍR flesta Íslandsmeistaratitla á mótinu alls 13 titla. Ef keppt hefði veið til stiga hefði keppni um sigur geta dottið FH eða ÍR megin.
Bikarkeppni FRI Utanhúss: Vegna Covid 19 var móti aflýst, FH var á pappírunum með sterkasta liðið.
Íslandsmet á árinu:
Í fullorðinsflokkum: Hilmar Örn Jónsson sló Íslandsmet í lóðkasti og sleggjukasti á árinu, Hilmar Örn bætti Íslandsmetið í sleggjukasti á fjórum mótum á árinu. Vigdís Jónsdóttir sló einnig Íslandsmet í lóðkasti og sleggjukasti á árinu og bætti hún metin nokkrum sinnum á árinu. Þá setti Kolbeinn Höður Gunnarsson Íslandsmet í 200 m hlaupi innanhúss.
Á árinu voru öll stærri mót á vegum alþjóðlegra sambanda aflýst, eina landskeppnin sem fór fram á árinu var Norðurlandameistaramótið sem fram fór í febrúar innanhúss. Ari Bragi Kárason Kormákur Ari Hafliðson og Þórdís Eva Steinsdóttir kepptu á því móti og stóðu sig vel.
Nú á haustmánuðum voru Hilmar Örn Jónsson sleggjukastari og Sindri Hrafn Guðmundsson spjótkastari valdir í OL hóp FRÍ, en þeir eiga góðan möguleiga að komast á Olympíuleikana á næsta ári í Japan. Þá voru 12 karlar og 11 konur valin í landsliðshóp FRÍ fyrir 2021, glæsilegir kandidatar það.