Fimmtudagur, apríl 24, 2025
HeimFréttirArngunnur Ýr er bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar 2025

Arngunnur Ýr er bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar 2025

Arngunnur Ýr Gylfadóttir myndlistarkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2025.

Arngunnur Ýr hefur skapað sér gæfuríkan feril til áratuga. Verk hennar hafa vakið athygli og hún haldið einka- og samsýningar hér heima, í Bandaríkjunum og meginlandi Evrópu. Hefð hefur skapast fyrir því að halda síðasta vetrardag hátíðlegan í Hafnarfirði með vali á bæjarlistamanni ársins.

„Ég er svo sannarlega stolt. Virkilega heiðruð, glöð og þakklát. Ég vil gefa af mér og finnst frábært að fá til baka,“ segir Arngunnur Ýr um nafnbótina.

„Ég hef þurft á myndlist að halda alveg síðan ég var eins árs segja foreldrar mínir. Það er satt. Ég var alltaf að teikna. Sterkasti krafturinn í mér er þessi þörf fyrir að tjá það sem ég upplifi. Þá er það yfirleitt á blaði, striga eða viðarplötu. Þannig hefur það verið alla mína tíð,“ segir hún.

Arngunnur Ýr segir að Ísland hafi togað í hana alla tíð, þótt hún hafi búið víða. Meðal annars í Nova Scotia sem unglingur en kom ein heim með skipinu Goðafossi þegar fjölskyldan varð eftir ytra. „Aðdráttaraflið hefur togað mig út í heim en ég alltaf leitað heim,“ segir hún. Hún hafi fundið sér samastað í Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Þar er hún einnig með vinnustofu.

„Ég elska svæðið og stemninguna í Hafnfirðinum,“ segir hún. „Við maðurinn minn búum hér og ég nýt þess að ganga þær mörgu dásamlegu gönguleiðir í nágrenninu. Hann fer í Suðurbæjarlaug og spjallar þar við fólkið. Ég er ekkert að fara og mun aldrei selja húsið mitt hér enda kann ég svo vel við bæjarbraginn,“ segir hún og brosir.

Arngunnur Ýr hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Hún útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Allt frá 10. áratugnum hefur landslag átt hug hennar.

„Ég er alltaf að nota náttúruna á einhvern hátt. Ekki bara til að mála einhverja fallega mynd heldur býr alltaf eitthvað meira og dýpra að baki. Þetta snýst um að það er undirliggjandi saga og það þarf að grafa dýpra og skoða verkin,“ lýsir hún rétt eins og sást í sýningu hennar Kahalii.

Þau sem áður haf hlotið nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar eru:

  • 2024 – Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona
  • 2023 – Pétur Gautur, myndlistamaður
  • 2022 – Björn Thoroddsen, gítarleikari
  • 2021 – Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður
  • 2020 – Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari
  • 2019 – Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri
  • 2018 – Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður
  • 2017 – Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
  • 2014 – Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
  • 2009 – Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
  • 2008 – Sigurður Sigurjónsson, leikari
  • 2007 – Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
  • 2006 – Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
  • 2005 – Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður

Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010-2013 og 2015 til 2016.

Við val á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar kallar menningar- og ferðamálanefnd eftir tilnefningum bæjarbúa.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2