fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimFréttirAtvinnulífByrjaði hjá Helga í Góu en er nú framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar

Byrjaði hjá Helga í Góu en er nú framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar

Einingaverksmiðjunnar ehf. sem hefur flutt starfsemi sína í Hafnarfjörð og fagnaði 30 ára afmæli fyrirtækisins um leið og opnun verksmiðjunnar við Koparhellu.

Í upphafi framleiddi fyrirtækið aðal­lega rifjaplötur til nota í þök stærri bygginga og ýmsa bita en síðan þá hefur framleiðslan þróast gífurlega. Í dag er framleiðslan mjög fjölbreytt upp í forsteyptar einangraðar veggja­e­iningar fyrir íbúðar- og iðnaðarhús. Má þar nefna forsteyptar svalir, lofta­plötur, stiga, bita ýmisskonar og svo sérlausnir eins og kereiningar fyrir landeldi en fyrirtækið er það eina á landinu sem framleiðir slíkar einingar. Aðspurð segir hún mest framleitt af holplötum, sem séu í raun stöðugt í framleiðslu.

L0ng vinnsluborðin eru áberandi í verksmiðjunni.

Segir Guðbjörg að eftirspurnin hafi aukist mikið á undanförnum árum. Hún segir þó að Íslendingar byggi ekki mjög stöðluð hús og því þarf að aðlaga einingar töluvert eftir óskum viðskiptavina og hönnuða.

Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri

Guðbjörg segir það miklu umhverf­is­­vænna, skilvirkara og fljótlegra að setja upp einingahús. „Íslendingar eru mjög eftir á miðað við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur og ég held að ein ástæðan sé að við höfum ekki verið með verksmiðju sem hefur haft nægilega mikla afkasta­getu. Byggingargeirinn á svo mikið inni, komandi úr Össur með mikla skilvirkni og í byggingargeirann þar sem oft er viðmiðið að þetta reddast,“ segir Guðbjörg og brosir.

Sagði hún að það vantaði enn reynslu hjá hönnuðum og sýndi blaða­­manni danska bók með glæsi­legum verkum þar sem notast var við forsteyptar einingar.

Ný aðferð við að setja mynstur í steypuna

Nýsköpun ber oft á góma í samtali við Guðbjörgu sem segir mikilvægt að horfa fram á við og þróa vörurnar áfram. M.a. bendir hún á að hægt er að gera alls kyns mynstur í steypuna með því að leggja á steypuborðið pappa sem í er efni sem kemur í veg fyrir að ysta lagið í steypunni harðni en það er svo þvegið burt. Þetta segir Guðbjörg gefi mjög mikla möguleika í útlitshönnun.

Eining í vinnslu

Stefnuhús er nafn á stefnumörkun fyrirtækisins sem Guðbjörg segir mjög mikilvægt að sinna vel enda ekki vanþörf á þegar framleiðslueining­arnar eru svo fjölbreyttar. Skv. henni ætlar fyrirtækið m.a. að verða leiðandi á sínu sviði og eftirsóttur vinnustaður í Hafnarfirði.

Vann hjá Helga í Góu

„Ég er Hafnfirðingur og ólst upp í Hafnarfirði og vann hjá Helga í Góu í tíu ár. Ég flyt svo í Mosfellsbæ þegar ég opna Kentucky í Mosfellsbæ. Eftir að hafa rekið hann í smá tíma skelli ég mér í skóla og klára verkfræðina þegar ég var orðin 25 ára. Ég ætlaði aldrei í skóla, fannst það algjör vitleysa. En ég kláraði  rekstrarverk­fræði í HR og iðnaðarverkfræði í HÍ og gerði svo meistararitgerðina fyrir Össur þar sem ég var í sjö ár og gegndi ýmsum störfum. Þaðan fór ég til Veitna og var þar forstöðumaður fráveitu. Í mars 2022 er ég beðinn að taka að mér að leiða Einingaverk­smiðjuna. Þá var fyrirtækið uppi á Höfða en ákvörðun hafði verið tekin um að flytja í Hafnarfjörð svo fyrsta verk­efnið var að flytja fyrirtækið í heimabæinn,“ segir Guð­björg sem fékk ærið verkefni að undirbúa flutninginn.

Hafnfirðingarnir Guðbjörg Sæunn og Örn Johnsen, stjórnarformaður. – Ljósm.: Hulda Margrét

Hvernig Hafnfirðingur ertu?

„Ég ólst upp í Hvömmunum, fór í Öldutúnsskóla og fór snemma að vinna. Foreldrar mínir eru Ólöf Unnur Einarsdóttir og Guðmundur Friðrik Óskarsson, leigubílstjóri á G-470“. Móðurforeldrar hennar voru Einar Pétursson, brunavörður og Guðbjörg Sæunn Júlíusdóttir sem Guðbjörg segir að hafi verið fyrsta konan sem keyrði mjólkurbíl. Föðurforeldrar hennar voru Óskar Hafnfjörð Auðunsson, Haffi ökukennari og Sólborg Guðmundsdóttir sem vann lengst sem matráðskona í Rafha.

30 ára afmæli

Fjölmennt var í 30 ára afmæli og opnunarhófinu þar sem fjölmargir þeir sem vinna með einingarnar fengu að skoða nýju verksmiðjuna en sumir höfðu jafnvel aldrei séð hvernig einingarnar voru framleiddar.

Nýtt mót sem gefur mikla möguleika á að steypa stiga eftir óskum.

Nánar um Einingaverksmiðjuna

Einingaverksmiðjan hóf starfsemi sína í febrúar árið 1994 þegar fyrirtækin ÓS húseiningar og Bygg­ingariðjan sameinuðu krafta sína undir einu nafni.

Fyrstu fimm árin störfuðu aðeins um tíu manns í framleiðslu hjá Eininga­verksmiðjunni og má segja að róðurinn hafi oft á tíðum verið þungur.

Stór verkefni hefjast og starfsmönnum fjölgar

Veggjaframleiðsla fór að aukast og árið 1995 var svo komið að hús sem steypt voru af Eininga­verksmiðjunni voru send með skipsförmum til Þýskalands.

Fyrsta stóra verkefnið var stækkun álversins í Straumsvík árið 1996 og í tengslum við það fjölgaði starfsmönnum upp í ríflega þrjátíu manns.

Ný stúka við Laugar­dals­völl var einnig steypt hjá fyrirtækinu á þessum árum sem hefur þjónað landsmönnum vel á landsleikjum frá árinu 1998 þegar hún var vígð.

1000 einingar fyrir fráveitulögn og mikill uppgangur

Ekki skorti fjölbreytni í framleiðslunni en á þessum árum tók Eininga­verksmiðjan að sér að steypa 1000 einingar fyrir fráveitulögn og vóg hver eining um 6 tonn.

Upp úr aldamótum var vöruúrval Einingaverksmiðjunnar orðið mun meira og mikil aukning framleiðslu á holplötum og forsteyptum svölum svo dæmi sé tekið.

Framleiðsla einskoraðist ekki við íslenska viðskiptavini því mikið var selt til Færeyja og Grænlands.

Þegar leið á áratuginn jókst eftirspurnin jafnt og þétt og um tíma var álagið svo mikið að félagið annaði ekki eftirspurn.

Breyttar aðstæður

Bankahrunið skall á með miklum þunga árið 2008. Fyrirtækið lifði af með mikla útsjónarsemi í rekstrinum og þá forsjá sem fólst í því að sótt hafi verið á erlenda markaði áður en efnahagskreppan reið yfir Ísland og hafði mikil áhrif á byggingarmarkaðinn.

Mikil vöruþróun og starfsemin vex

Vöruþróun og nýsköpun hefur aukist mikið á síðustu árum og aukin áhersla og geta til að mæta fjölbreyttum þörfum og óskum viðskiptavina.

Starfsemi Einingaverk­smiðjunnar hefur vaxið mikið á síðasta áratug og í dag starfa um 80 manns.

Flutningar í nýja verksmiðju og spennandi tímar framundan

Nýja verksmiðjuhúsið við Koparhellu

Framleiðslan hefst um áramótin 2023 í nýrri hátækni verksmiðju við Koparhellu 5 í Hafnarfirði. Verksmiðjan er sex þús. fermetrar að stærð og inniheldur 25 framleiðslu­bekki sem eru allt að 90 metra langir.

Framleiðslu­geta er nú yfir 1000 fer­metrar á dag og gerir því ný verk­smiðjan Eininga­verksmiðjunni kleift að vaxa enn frekar og framleiða hágæða vörur á fjölbreyttan máta.

L0ng vinnsluborðin eru áberandi í verksmiðjunni.

Greinin var fyrst birt í 4. tbl. Fjarðarfrétta, 11. apríl 2024

Frítt Fjarðarfrétta-app í símann þinn!

Hægt er að sækja app í þinn síma  í Play Store í Android símum og í Apps store í iOS símum. Frítt er að sækja appið og lesa Fjarðarfréttir!

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2