Margrét Gauja Magnúsdóttir, kennari og fv. bæjarfulltrúi, hefur verið ráðin sem verkefnastjóri ungmennahússins Hamarsins í gamla Skattstofuhúsnæðinu, en staðan var auglýst fyrir skömmu eftir að John Friðrik Bond Grétarsson, sem gegnt hafði störfum sem verkefnastjóri hússins frá 2018 eða frá upphafi, sagði starfi sínu lausu.
Margrét Gauja hefur nýlokið meistaranámi við Háskólann á Bifröst í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun en hún útskrifast í júní.
Á Facebook síðu sinni segist Margrét Gauja að á tímabili hafi henni fundist 2020 stefna í að verða ekkert svo meiriháttar ár en segist nú halda að það sé að snúast uppí að verða með þeim betri.
Hún hefur undanfarið starfað úti á landi og var ma. hótelstjóri í eitt og hálft ár auk þess að starfa sem leiðsögumaður og við að gifta fólk.
Hún var ein þeirra sem veiktist af Covid-19 og segir hún að sú langa reynsla hafi kennt sér margt jákvætt sem mun nýtast henni til framtíðar.
„Já ég er glöð og spennt og ánægð að vera komin aftur „heim” með unga fólkinu. Það var alltaf stefnan en þurfti fjarlægð frá Hafnarfirði og pólitík og öllu því. Var fínt að flýja það uppá jökla með fólki sem hafði ekki hugmynd um hver þú varst,” segir Margrét Gauja í samtali við Fjarðarfréttir.
Margrét Gauja mun hefja störf 1. ágúst n.k.