Hafnfirðingurinn Karen Gunnarsdóttir hefur opnað nýja lífsstíls- og gjafavöruverslun á 2. hæðinni í Firði. Segir hún viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hafi hún gripið tækifærið fegins hendi þegar hún sá að plássið var laust en hún stofnaði vefverslun 1. nóvember sem fékk gríðarlega góðar viðtökur.
„Mig vantaði lagerrými og sá að það var gaman að geta sýnt vörurnar, svo ég sló til og opnaði búðina 6. desember sl.“ Karen segist kunna mjög vel við sig í Firði og hafi hún unnið þar áður og ávallt fundist gott að vera þar.
Karen selur aðallega danskar vörur og þá helst frá vörumerkinu Miss Étoile. Einnig selur hún vörur frá vörumerkinu Bahne interior, Margit Brandt og Cosy living, en hún segir að vöruúrvalið eigi eftir að aukast mikið.
Vörurnar frá Miss Étoile eru glaðlegar vörur og einkennast af pastellitum og augum. Í Milly má finna borðbúnað, kertastjaka, brúsa, blómavasa, krukkur, box, kökudiska og litrík áhöld í eldhúsið, ótrúlega skemmtilegar og litríkar vörur sem vert er að líta á. Segir Karen vörurnar einstaklega skemmtilegar til gjafa.
Opið er virka daga kl. 10-18, laugardaga kl. 11-17 og sunnudaga kl. 13-16 til jóla.
Ljósmyndir: © Guðni Gíslason