Hjónin Halldóra Anna Hagalín og Viðar Bjarnason hafa tekið við rekstri líkamsræktarstöðvarinnar Kvennastyrks á Strandgötunni.
„Stöðin er, líkt og nafnið gefur til kynna, einungis fyrir konur og markmið okkar er að bjóða áfram upp á hvetjandi, faglega og vandaða þjálfun þar sem allar konur geta komið og liðið vel,“ segir Halldóra Anna.
Segir hún að uppbygging stöðvarinnar hafi tekist frábærlega hjá fyrri eiganda og vel hafi verið vandað til verka.
„Stöðin er þekkt fyrir fjölbreytta tíma fyrir allar konur á öllum aldri sem og frábæra hópatíma fyrir konur á meðgöngu og eftir barnsburð.
Kvennastyrkur er sérstaklega skemmtilegur staður og andinn hérna alveg meiriháttar. Við erum afar heppin hve vel Sigrún María, fyrri eigandi, stóð að verkum hér. Aðstaðan er til fyrirmyndar, hvort sem við horfum á hópatímasalinn, lyftingasalinn eða búningsklefann, og það er fátt sem við viljum breyta,“ segir Viðar Bjarnason.
Langflestir tímar sem hafa verið á stundatöflunni halda sér og ætlunin er að bæta við í, allt frá meðgöngujóga yfir í kröftuga styrktartíma. Stöðin er á jarðhæð og því hægðarleikur að hafa barn í vagni beint fyrir utan þar sem mamman er og þá getur hún fylgst vel með barninu á meðan hún æfir.
Í boði verður að festa ákveðna tíma þannig að viðskiptavinir eigi alltaf öruggt pláss í uppáhaldstímana auk þess sem nú er hægt að velja fljótandi tíma þannig að tímar eru valdir viku fram í tímann.
„Við erum afar spennt að byrja með styrktartíma fyrir unglingsstúlkur í 8. til 10. bekk og erum að vinna í að geta boðið upp á greiðslur í gegnum frístundastyrkinn. Einnig munum við bjóða upp á jóga þrisvar í viku sem fær okkur til að hvíla taugakerfið örlítið, teygja og njóta“, segir Halldóra.
Fjölbreyttir styrktartímar fyrir allar konur þar sem hver og ein vinnur eftir eigin styrk og getu verða í boði allt að fimm sinnum á dag svo flestar ættu að geta fundið tíma sem þær komast í. Í bland við styrktartíma eru einnig tímar í þreki, grunni, krafti og fleiru. Þá verða tímar tvisvar í viku sérstaklega fyrir konur 55 ára og eldri.
„Við erum afar þakklát fyrir þetta tækifæri og hve vel haustið byrjar hjá okkur en við byrjuðum með fyrstu tímana hjá okkur mánudaginn 8. ágúst og til okkar mætti góður hópur kvenna í alla tíma dagsins en við pössum vel að hafa ekki of mörg pláss í hverjum tíma svo allar þær sem mæti geti notið æfinganna í ljúfu umhverfi og unnið eftir eigin getu með styrkri aðstoð þjálfara“, segja hjónin og bæta við að markmið Kvennastyrks sé að ýta undir ákefðina og hvatann sem býr innra með okkur.
„Í Kvennastyrk stuðlum við að heilbrigðu sambandi við hreyfingu, vinnum að því að auka trú á eigin getu, gera eins vel og við getum og njótum á æfingu.“