Nýr Ísey-skyrbar hefur verið opnaður við hliðina á bensínstöð N1 á Reykjavíkurveginum.
Jónína K. Kristinsdóttir, veitingastjóri Ísey-skyrbars, segir í samtali við Fjarðarfréttir að Hafnfirðingar hafi greinilega verið spenntir fyrir að Ísey-skyrbar yrði opnaður í Hafnarfirði. Er þetta áttundi Ísey-skyrbarinn sem opnaður er en fyrir ári var slíkur staður opnaður við bensínstöð N1 í Fossvogi þar sem hægt var að kaupa í bílalúgu. Það reyndist svo vinsælt að nýi skyrbarinn á Reykjavíkurvegi er einnig með bílalúgu svo viðskiptavinir á hraðferð geta keypt án þess að fara út úr bílnum. Hægt verður að setjast niður inni þegar slakað verður á sóttvarnarreglum.
Hjá Ísey-skyrbar er í boði orkuskálar, sem Jónína segir einna vinsælastar, skyrhristingur og safi auk engiferskota og gómsætra klatta.
Á matseðlinum eru þrjár gerðir af skyrhristingum, fimm gerðir af orkuskálum og þrjár gerðir af ferskum safa.
Að sögn Jónínu hefur sala á skyrvörum aukist mikið á síðustu einu og hálfu til tveimur árum. Greinilega sé mikil vakning fyrir hollum skyndibita og úrvalið af skyndibita því stöðugt að aukast.
Blaðamaður Fjarðarfrétta fékk að smakka á Acai ofurberjaskál sem er með hreint skyr í botninum og á milli er blanda af hreinu skyri, jarðarberjum, bláberjum, bönunum og acai sem toppað er með stökku granóla, jarðarberjum, bláberjum og bananasneiðum.
Reyndist þetta ótrúlega skemmtileg blanda af ferskri skyrblöndu og stökku granóla sem bragðaðist einstaklega vel. Ekki spillti að bíta í gómsætan spelt súkkulaðibitaklatta á milli og reynist þetta staðgóð máltíð.
Formleg opnun var í gær og eru sérstök opnunartilboð í gangi fram á fimmtudag.
Opið er kl. 7.30-19.30 virka daga, 9-17 á laugardögum og 10-17 á sunnudögum.