Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Sigurð Nordal í stöðu sviðsstjóra stjórnsýslusviðs.
Sigurður starfaði á árinu 2020 tímabundið við ráðgjöf og aðstoð við stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar og vann þar m.a. að mikilvægum fjárhagslegum greiningum og úttektum. Sigurður mun hefja störf í mars.
Sigurður nam hagfræði við Háskóla Íslands og Columbia háskóla í New York. Hann starfaði hjá Seðlabanka Íslands, bönkum og fjármálafyrirtækjum í ýmsum ábyrgðarstörfum um sextán ára skeið. Sigurður var framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands við flutning hljómsveitarinnar í Hörpu og fyrstu árin í nýju tónlistarhúsi. Þá stýrði hann viðskiptadeild Morgunblaðsins um árabil.
Í tilkynningu segir að Sigurður hafi víðtæka þekkingu og reynslu af rekstri og verkefnum m.a. sveitarfélaga en hann hefur starfað sem ráðgjafi m.a. fyrir opinbera aðila og setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.
Alls sóttu 30 um stöðuna.