Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kallaði nýlega eftir upplýsingu frá öllum höfnum landsins um fjárfestingar og aðgerðir við orkuskipti í skipum við bryggju. Er þetta hluti af átaki í að minnka brennslu olíu í skipum við bryggjur landsins.
Í svari frá Hafnarfjarðarhöfn segir að ýmsar framkvæmdir vegna orkuskipta hafa verið og verða í gangi á þessu ári hjá Hafnarfjarðarhöfn og er heildarkostnaður áætlaður um 30 milljónir kr.
Háspennutengingar
Þá er hafinn undirbúningur að háspennuteningum inn á hafnarsvæðið. Fyrsti áfangi er að setja upp háspennuteningar á Suðurbakka, allt að 2 MW og eru þær tengingar hugsaðar fyrir minni farþegaskip sem hafa þar viðdvöl á sumrin, og einnig flutningaskip og frystitogara.
Á þessu ári verður unnið að frekari undirbúningi og hönnun þessa verkefnis, en stefnt er að því að koma háspennutengingum á fleiri hafnarbakka á næstu 3-4 árum sem nánar verður kynnt á næstunni.
Í Hafnarfjarðarhöfn er fyrir öflugt raftengikerfi lágspennu með fjölbreyttum tengibúnaði með liðlega 200 tenglum sem eru frá 16 til 250 amper. Þessi búnaður hefur verið byggður upp á síðustu 10-15 árum og hefur Hafnarfjarðarhöfn verið í fararbroddi við rafvæðingu hafna hérlendis að sögn Lúðvíks Geirssonar hafnarstjóra.
Á nýjum hafnarbakka – Háabakka, þar sem skip Hafrannsóknarstofnunar hafa viðlegu, er verið að að ljúka framkvæmdum á m.a. 2 x 200 A tengingum.
Ódýrara og hreinna
„Þessar framangreindar framkvæmdir teljum við að falli allar undir skilgreingar stjórnvalda um orkuskipti í höfnum til að tryggja innviðuppbyggingu sem stuðlar að notkun endurnýjanlegra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis,” segir Lúðvík Geirsson hafnarstjóri í bréfi til ráðuneytisins.
Skv. upplýsingum frá Hafnarfjarðarhöfn kostar 27,45 kr. að framleiða rafmagn með díselolíu auk þess sem við bruna á hverjum lítra af díselolíu sleppur 1.330 kg af C02 út í andrúmsloftið.
Rafmagn með landtengingu kostar hins vegar aðeins 17,20 kr. og því um 37% sparnaður umfram notkun á olíu.