fbpx
Föstudagur, janúar 17, 2025
HeimFréttirAtvinnulífSveindís Anna nýr framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar

Sveindís Anna nýr framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar

Sveindís Anna Jóhannsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar.

Tók hún við af Önnu Guðnýju Eiríksdóttur sem sinnti starfinu frá stofnun.

Sveindís var framkvæmdastjóri hjá Félagsráðgjafafélagi Íslands en er einnig vel kunnug endurhæfingarþjónustu. Hún hefur m.a. starfað áður hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar, Samvinnu starfsendurhæfingu á Suðurnesjum og Reykjalundi en þar starfaði hún sem forstöðufélagsráðgjafi. Sveindís er félagsráðgjafi með MA próf og sérfræðileyfi í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði ásamt því að vera menntaður handleiðari og sáttamaður.

Stofnuð árið 2008

Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar var stofnuð í september árið 2008 og voru stofnaðilar  Hafnarfjarðarbær, Sjúkraþjálfarinn ehf., Starfsmannafélag Hafnarfjarðar og Verkalýðsfélagið Hlíf.  Kveikjan að stofnuninni var þróunarverkefni um starfsendurhæfingu í Hafnarfirði sem hófst haustið 2007 og var styrkt af Leonardo starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins. Verkefninu var stýrt af Starfsendurhæfingu Norðurlands og var Sjúkraþjálfarinn ehf aðili að verkefninu.

Anna Guðný Eiríksdóttir vann að  þróunarverkefninu fyrir hönd Sjúkraþjálfarans ehf. ásamt Gunnari Viktorssyni og var síðan ráðin framkvæmdastjóri  Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar við stofnun.

Hún er menntaður sjúkraþjálfari  og hefur lokið diplóma prófi í fræðslustarfi og stjórnun og MA prófi í uppeldis- og menntunarfræði. Með samstarfsfólki sínu hefur hún síðast liðin 16 ár byggt upp heildstæða þverfaglega starfsendurhæfingu þar sem unnið er með andlega, líkamlega og félagslega þætti, en að endurhæfingunni kemur teymi fagfólks með mismunandi sérþekkingu og áherslur miðast við þarfir hvers og eins.

Starfsemi sem hefur vaxið og dafnað

Upphaflega var starfsendurhæfingin hugsuð sem nær þjónusta fyrir íbúa Hafnarfjarðar, eins og nafnið gefur til kynna. Fljótlega þróaðist starfsemin þó þannig að þjónustan stendur öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða. Frá upphafi hefur starfsemin verið fjármögnuð af þjónustugjöldum, fyrstu þrjú árin frá ríkinu, en síðan í vaxandi mæli frá Virk starfsendurhæfingarsjóði, sem er helsti og mikilvægasti samstarfsaðili Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vinnumálastofnun hafa einnig vísað fólki í þjónustu stöðvarinnar og eru mikilvægir samstarfsaðilar.

Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar hefur vaxið og dafnað og starfa nú alls sjö starfsmenn þar. Markmið starfsins er sem fyrr að aðstoða fólk, sem hefur dottið út af vinnumarkaði, að ná fótfestu á vinnumarkaði á ný. Þátttaka í endurhæfingu er heilmikil vinna í samstarfi við fjölda fagfólks, fjölskyldu, vini og aðkomu ýmissa þjónustukerfa.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2