fbpx
Laugardagur, janúar 18, 2025
HeimFréttirAuglýsa lóð undir fjölbýlishús sem ætlað er undir knatthús í valkosti B

Auglýsa lóð undir fjölbýlishús sem ætlað er undir knatthús í valkosti B

Vinna við úrvinnslu athugssemda við matsáætlun vegna væntanlegs umhverfismats enn í gangi

Hafnarfjarðarbær og Knattspyrnufélagið Haukar undirrituðu á dögunum framkvæmdasamning um byggingu knatthúss á Ásvöllum skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Samhliða því afhentu Haukar hluta af lóð sem þeir höfðu fengið úthlutað til íþróttastarfs til Hafnarfjarðarbæjar undir uppbyggingu á 100-110 íbúðum.

Veruleg breyting var samþykkt á deiliskipulagi Ásvalla og staðfest með auglýsingu í Stjórnartíðindum 27. júlí 2021 með þeim fyrirvara að framkvæmdir við knatthús væru háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í matsáætlun er gert ráð fyrir tveimur valkostum, valkosti A þar sem knatthúsið er fært í NA enda lóðarinnar, næst Ástjörn og valkosti B, þar sem gert er ráð fyrir knatthúsinu sunnan við íþróttahús Hauka.

Ekki gert ráð fyrir fjölbýlishúsalóðinni í valkosti B

Með þessu samkomulagi Hafnarfjarðar og Hauka hefur valkosti B verið sópað út af borðinu því hluti af byggingarreitnum undir knatthúsið hefur nú verið afhentur Hafnarfjarðarbæ undir fjölbýlishús. Ekki er gert ráð fyrir fjölbýlishúsalóðinni skv. valkosti B.

Unnið er nú að matsáætlun fyrir umhverfismat sem áskilið er vegna nálægðar við Ástjörnina sem er friðuð og vegna viðkvæms vatnafars. Þegar heildarhönnun knatthússins liggur fyrir, sem og mat á umhverfisáhrifum þess, verður bygging hússins boðin út skv. tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Eins og sést á efstu myndinni skarast byggingarreitir fjölbýlishússins og knatthússins eins og það er skv. valkosti 2 sem gerir þann valkost í raun óraunhæfan.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis gerir einmitt athugasemd við þetta í sinni umsögn um matsáætlunina og segir: „Greining valkosta þar sem í raun aðeins einn valkostur er til skoðunar er ekki í anda laganna nr. 11/2021. Framkvæmdaraðili, skýrsluhöfundur verða að leggja fram aðra kosti til að bera saman við kost A.

Valkostir sem verða til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum. Myndir úr deiliskipulagstillögu (ASK Arkitektar, 2019).

Fjölbýlishúsalóð með 100-110 íbúðum auglýst án fyrirvara

Lóðin Ásvellir 3 þar sem hugmynd að útliti húsa hefur verð sett inn. – Aðsend mynd frá Hafnarfjarðarbæ.

Hafnarfjarðarbær hefur auglýst lóðina Ásvellir 3 en hún er að hluta á byggingarreit knatthúss skv. valkosti B eins og áður hefur komið fram.

Lóðin Ásvellir 3 er við íþróttamiðstöð Hauka gengt Ásvallalaug. Á lóðinni er heimilt að byggja fjölbýlishús á 2-5 hæðum, alls 100-110 íbúðir. Bílastæði má hafa að hluta í bílakjallara á einni hæð. Lóðin hefur þegar verið auglýst til sölu og er lágmarksverð í lóðina 447,9 milljónir kr. og tilboðsfrestur er til kl. 13 föstudaginn 28. janúar.

Ekki heimilt að veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi

Hvergi er getið fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats en skv. upplýsingum lögfræðings Skipulagsstofnunar er samkvæmt 25. gr. laga nr. 111/2021 óheimilt að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lögin fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat knatthússins liggi fyrir. Hér undir falla m.a. byggingar- og framkvæmdaleyfi.

Lögmaður Hafnarfjarðarbæjar segir aðspurður að ef þörf þyki að settir séu fyrirvarar við úthlutun lóðarinnar þá geri hann ráð fyrir að það verði metið áður en úthlutun sé formlega lokið.

Íbúar í Áslandi gera alvarlegar athugasemdir við nýja staðsetningu knatthússins

Hulda Hákonardóttir, íbúi í Áslandi, er ein þeirra sem sendir inn athugasemdir við matsáætlunina og eru þær mjög ítarlegar.

Hún segir m.a. að í fyrirliggjandi matsáætlun Hafnarfjarðarbæjar sé það eina sem eigi að skoða sé að mæla eigi vatnsyfirborð í Ástjörn yfir 8 mánaða tímabil. Meira sé það ekki. Segir hún að sveitarfélagið hafi þegar ákveðið að reisa mannvirkið á þessum stað og sé skóflustunga bæjarstjóra í apríl 2021 vitni um það. Er umsögn hennar alls 13 blaðsíður og má lesa allar athugasemdirnar hér.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2