Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur fallist á erindi Vegagerðarinnar að syðri hluta Bláfjallavegar verði lokað að sinni vegna vatnsverndarsjónarmiða, frá Leiðarenda austur að veginum frá Vesturlandsvegi að Bláfjöllum. Að mati bæjarráðs er þörf á frekara umhverfis- og áhættumati á vegarkaflanum og er óskað eftir því að umhverfis- og framkvæmdaráð láti vinna slíkt mat sem liggi fyrir í síðasta lagi fyrir árslok 2021. Að því loknu verði teknar ákvarðanir um framtíð vegarins.
Ekki bráðahætta að sögn formanns bæjarráðs
Fjarðarfréttir sendi formanni bæjarráðs, Ágústi Bjarna Garðarssyni, fyrirspurnir um forsendur samþykktar bæjarráðs.
Hvaða bráðahætta telur bæjarráð vera sem réttlætir að loka vinsælum vegi að upplandi Hafnarfjarðar og að skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins. Er bráðahættan svo mikil að ekki megi fresta ákvörðun þar til umhverfis- og áhættumat liggur fyrir?
„Það hefur ekki verið talið að um bráðahættu sé að ræða eins og fram kemur í fyrirspurn þinni. Það er hins vegar alveg augljóst að vitund um mikilvægi vatnsverndar er alltaf að aukast og hefur verið talið rétt að grípa inn í áður en hugsanlegt óhapp verði þess valdandi að vatnsbólið í Kaldárbotnum mengist. Bláfjallavegur liggur að stórum hluta innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna sem er eina vatnsból okkar Hafnfirðinga. Vegurinn er ekki þjónustaður og er þar af leiðandi slæmur yfirferðar, auk þess sem brattir vegfláar og krappar beygjur auka líkur á óhöppum.“
Hvaða vatnsverndarskil eru við Leiðarenda. Er hættan ekki jafn mikil á löngum kafla vestan leiðarenda og austan hans? Eða er aðeins verið að tryggja aðgengi að Leiðarenda án tillits til vatnsverdunarsjónarmiða?
„Auk þess er rétt að benda á að vegurinn er ekki þjónustaður og því ekki ruddur á veturna. Í mörgum tilfellum er hann því ófær þegar skíðasvæðið er opið. Gerðar hafa verið ýmiskonar rannsóknir á svæðinu sem vegurinn liggur um, bæði jarðfræðilegar og vatnafræðilegar og metið út frá því hvar mesta hættan er á mengun grunnvatns. Vegkaflinn frá Ásbraut að Leiðarenda er í þeim rannsóknum talinn þannig staðsettur að lítil hætta sé á útbreiðslu mengunar miðað við hættuna á öðrum köflum vegarins og því ákveðið að hafa opið að Leiðarenda.“
Skv. skýrslu Íslenskra orkurannsókna frá 2012 er veginum skipt í áhættuflokka eftir því hvernig jarðlög gætu tekið við olíumengun. Skv. því væri engin ástæða að loka veginum fyrr en í fyrsta lagi nálægt Kristjánsdalahorni og því væri leiðin þá opin að Selvogsgötunni.
Í skýrslu VSÓ frá nóvember 2018 er ekki tekin afstaða til lokunar, heldur er vísað í að til umræðu hafi verið að loka veginum og í skýrslunni sé gengið út frá að svo verði og ekki fjallað um það nánar.
Bæjarstjórn hafði vísað málinu til bæjarráðs en upphaflega var málið tekið upp hjá skipulags- og byggingarráði 29. janúar sl. en bæjarbúum hefur hvergi verið gefinn kostur á að segja sitt álit en vegurinn styttir leið skíðafólks af Völlum um 11 km hvora leið.
Að útivistarsvæðinu í Bláfjöllum liggja tveir vegir í umsjá Vegagerðarinnar. Eru það Bláfjallavegur (417) og Bláfjallaleið (407) sem liggur frá Bláfjallavegi að skíðasvæðinu.
Bláfjallavegur er í raun tveir vegir, 417-1 sem liggur frá Suðurlandsvegi að mótum Bláfjallavegar og Bláfjallaleiðar og svo 417-2 sem liggur frá þessum gatnamótum til Hafnarfjarðar. Sá hluti vegarins hefur ekki fengið vetrarþjónustu og hefur það lengt akstursleið Hafnfirðinga á skíðasvæðin verulega.
Umferðaröryggisúttekt
Umferðaröryggisúttekt var framkvæmd á Bláfjallavegi í maí 2012. Samkvæmt þeirri úttekt eru t.a.m. vegfláar mjög víða of brattir, eða klappir eða grjóthnullungar innan öryggissvæða. Á kafla 417-01 eru skráðir ríflega 4,7 km vegar þar sem slíkt er raunin eða ríflega helmingur vegalengdar. Á Bláfjallaleið eru hins vegar skráðir samtals um 4,6 km þar sem fláar eru of brattir eða klettar/grjót innan öryggissvæða, sem er allnokkuð á vegkafla sem er um 4,3 km að lengd.
Í minnisblaði frá VSÓ Ráðgjöf frá maí 2012 segir að umferðaröryggisúttekt á Bláfjallavegi (417-01) hafi leitt í ljós að öryggissvæði uppfylli ekki á stórum svæðum veghönnunarreglur sem gerðar eru til nýframkvæmda. Innan öryggissvæðis séu grjót, klappir eða hraun og vegflái sé víða brattari en hann á að vera. Einnig sé mikið um tengingar við veginn.
Af þessum sökum uppfyllir aðkomuleiðin að Bláfjöllum af Suðurlandsvegi ekki veghönnunarreglur. Grjót, hraun eða klappir við veginn geta aukið alvarleika slysa lendi bíll sem hafnar utan vegar á slíkri fyrirstöðu auk þess sem bensín- eða olíutankur getur rifnað lendi bíll á grjóti.
Ekkert kemur fram um öryggisþátt á kaflanum frá Hafnarfirði en í bréfi Vegagerðarinnar frá 24. janúar sl. eru mótvægisaðgerðir nefndar þær helstar að loka þurfi syðri hluta Bláfjallavegar fyrir almennri umferð, frá gatnamótum Bláfjallavegar og Bláfjallaleiðar og suður undir hellinn Leiðarenda en einnig úrbætur á norðurhluta Bláfjallavegar til að lágmarka slysahættur og hættu á mengunarslysum.
Gengið út frá lokun
Í skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Vegagerðina þar sem umfang endurbóta er metin er eingöngu vísað í umferðartölur á Bláfjallavegi 417-1 en engar umferðarmælingar virðast hafa verið gerðar á kaflanum frá Hafnarfirði.
Þar er vísað í vítarlega greinargerð sem Íslenskar orkurannsóknir gerðu 2012 um mengunarhættu vegna óhappa á vegum til Bláfjalla. Þar voru allar leiðir metnar og mesta áhættan var á svæði sem liggur norðan Kristjánsdalahorns sem er um 5 km frá gatnamótunum í átt til Hafnarfjarðar. Í reiknilíkani sem Mannvit gerði 2011 var metið að jafnvel 6.000 l af olíu sem færu út í grunnvatnsstrauminn þynntust það hratt út að það myndi ekki valda mengun á vatnstökusvæðum höfuðborgarinnar.
Ekki lagaður á einu bretti
Ljóst er að vegurinn verður ekki endurbættur allur á einu bretti og því þarf að forgangsraða framkvæmdum. Sett hefur verið fram gróft mat á núverandi vegum um svæðið. Jafnframt hafa verið sett upp drög að áætlun um úrbætur, í hverju þær skuli felast og forgangsröðun aðgerða. Fyrirheit um hvað gera þarf í nánari hönnun s.s. hvar megi setja vegrið í stað stórra fláa verða hins vegar ekki sett fram á þessum tímapunkti heldur verður það tekið upp þegar verkið skýrist nánar.
Áætlað er að kostnaður framkvæmda á Bláfjallavegi og Bláfjallaleið sé um 260 milljónir.
Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar nær til stærsta hluta Bláfjallavegar 417-2 eða að fyrrnefndu Kristjánsdalahorni.
Aukin ásókn hefur verið í útivist á undanförnum árum og þörf fyrir góðan veg að skíðasvæðunum frá Hafnarfirði hefur aukist en bæjaryfirvöld hafa hvorki þrýst á bættan veg né vetrarþjónustu.