Afsláttur á fasteignaskatti ellilífeyris- og örorkuþega mun aukast umtalsvert á komandi ári samkvæmt tillögu sem bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær. Tekjuviðmið verða hækkuð og fleiri njóta afsláttar. Gert er ráð fyrir að hækkun viðmiða verði um 30% umfram 11,4% hækkun á launavísitölu árið 2016.
Hjón mættu þannig hafa allt að 6.405.500 í laun til að njóta 100% afsláttar. Heildarlaun hjóna mættu nema allt að 6.851.500 til að fá 75% afslátt, allt að 7.297.700 til að fá 50% afslátt og allt að 7.742.300 til að fá 25%. Afsláttur fyrir einstaklinga er veittur frá 5.013.00 (100%) að 5.347.200 (25%)
Bæjarráð samþykkti einróma að vísa tillögunni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.
Fasteignaskattur var hækkaður um 21,4% árið 2016 en holræsagjöld og vatnsgjald lækkað þar sem of hátt gjald hafði verið innheimt. Þá hefur fasteignamat hækkað hratt og því óljóst hver raunbreyting verður.