Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekur undir bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs frá 16. febrúar um mikilvægi þess að opna Bláfjallaveg syðri og hefja undirbúning að endurbótum á þessum vegkafla.
Ítrekaði umhverfis og framkvæmdaráð á fundi sínum beiðni sína um að kostnaðarmat vegna syðri hluta Bláfjallavegar(417-02) og telur ráðið mikilvægt í ljósi umferðaröryggissjónarmiða að leiðin verði opnun.
Taldi ekki ástæðu til að gera nákvæmt kostnaðarmat
Í svari Vegagerðarinnar í október 2020, við ósk um kostnaðarmat, segir að ljóst sé að kostnaður við lagfæringar á umræddum vegi innan vatnsverndarsvæðis yrði umtalsvert meiri á hvern kílómetra en sá kostnaður sem samgönguáætlun gerði ráð fyrir við þann hluta sem nú hefur verið boðinn út og er þá átt við veginn frá Suðurlandsvegi að Bláfjöllum. Vegagerðin taldi ekki ástæðu til, að svo stöddu, að fara í nákvæmari greiningu á kostnaðarmati vegna endurbóta á þeim veghluta Bláfjallavegar, 417-02, sem samþykkt var að loka tímabundið.
Í bókun umhverfis- og framkvæmdaráðs, sem bæjarstjórn tók undir á fundi sínum í gær, miðvikudag, segir: „Gögn sýna að unnt er að gera endurbætur á þessari leið þannig að tryggt verði að umferðaröryggissjónarmið vegna vatnsverndar séu fullnægjandi og það er því áréttað að heimild til lokunar var veitt tímabundið vegna forgangsröðunar verkefna Vegagerðarinnar í ljósi áforma um framkvæmdir á Bláfjallasvæðinu.“