Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur óskað eftir því að bæjarstjórn Hafnarfjarðar breyti samþykkt sinni um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem birt var í Stjórnartíðindum 26. maí 2016. Er það til að fullnægja sjónarmiðum sem fram höfðu komið í nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um þær kröfur sem gera verður til skýrleika framsals heimilda til fastanefnda og starfsmanna sveitarfélaga til að fullnaðarafgreiða einstök mál.
Upphaf málsins má rekja til samþykktar bæjarstjórnar á nýjum samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar 12. desember 2018 sem send var ráðuneytinu til samþykktar.
Staða mála virðist hafa verið lítið kynnt í bæjarstjórn
Ráðuneytið gerði athugasemdir við þær og var bréf þess efnis tekið fyrir í forsetanefnd 1. apríl 2019. Ekki er að finna í fundargerðum bæjarins upplýsingar um að málið hafi verið tekið fyrir í bæjarráði eða í bæjarstjórn.
Lítið virðist hafa gerst í málinu síðan og sendi Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi fyrirspurn í september til ráðuneytisins og óskaði eftir áliti þess á ákveðnum atriðum í stjórnsýslu Hafnarfjarðarkaupstaðar sem vörðuðu fullnaðarafgreiðslu skipulags- og byggingarráðs og skipulags- og byggingarfulltrúa í einstökum málum.
Sendi ráðuneytið í framhaldi af því bréfi svar til Jóns Inga og ítrekun til Hafnarfjarðarbæjar 18. september sl.
18. september sl. var málið að klárast á næstu vikum
Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður svaraði bréfi ráðuneytisins 24. september sl. þar sem kom fram að verið væri að vinna í málinu og að vinna myndi þá klárast á næstu vikum.
Málið er enn óklárað, tæpum 7 mánuðum seinna.
Erindisbréf skipulags- og byggingarráðs frá 2011 hefur ekki hlotið staðfestingu