fbpx
Mánudagur, janúar 6, 2025
HeimFréttirBarátta Blakfélags um aðstöðu

Barátta Blakfélags um aðstöðu

Vilja stranblakvöll við Suðurbæjarlaug

Í fjögur ár hefur Strandblakfélag Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Blakfélag Hafnarfjarðar vakið athygli á því að enginn strandblakvöllur er í bænum.  Vorið 2017 var fyrst óskað var eftir því við bæinn að gera velli við Suðurbæjarlaug, þar sem garðurinn við laugina er stór og skjólsæll og hentar því einkar vel fyrir strandblakvelli.  Tekið var jákvætt í erindið en lítið gerðist í kjölfarið.

Á þessum fjórum árum hafa félögin minnt reglulega  á sig með fyrirspurnum, kosningum á betri Hafnarfirði og nú síðast með erindi til Íþrótta og tómstundaráðs sem aftur tók mjög jákvætt í erindið.

Klaufaleg tilraun á Víðistaðatúni

„Það er því von okkar að vellirnir fari loksins að verða að veruleika, enda er það frekar slappt fyrir heilsu- og íþróttabæinn Hafnarfjörð að bjóða ekki upp á strandblakvelli,“ segja þau Fanný YngvadóttirGuðmundur HaukssonGunnlaugur Reynir SverrissonJónas Þór Oddsson, Selma Benediktsdóttir, Sigurður Garðar Barðason, Sigríður Gréta Sigfúsdóttir og Úlfar Linnet, stjórnarmenn í Strandblakfélagi Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Blakfélagi Hafnarfjarðar.

Þau segja að síðasta sumar hafi hjartað í þeim tekið smá kipp þegar þau fréttu að bærinn væri búinn að kaupa strandblaknet og staura og bjuggumst þau við því að í kjölfarið yrði haft samband við þau til að fá leiðbeiningar við gerð strandblakvallarins.  Þau segja að ekki hafi verið talað við neinn af stjórnarmönnum eða félagsmönnum, en í lok júlí auglýsti Hafnarfjörður svo að nú væri kominn fyrirtaks strandblakvöllur á Víðistaðatúni!

„Eins og við var að búast þegar ekkert er talað við íþróttafólkið sjálft, varð niðurstaðan klaufaleg og eitthvað sem í besta falli er hægt að kalla hálfkáksvöll. Sandurinn á vellinum er ekki hæfur fyrir berar tær, það vantar línur til að sýna vallarmörk og það eru hættulegar hindranir í formi gamalla handboltamarka í jaðri vallarins að maður tali ekki um hraunjaðarinn sjálfan. Þessi völlur er því ónothæfur í æfingar og mót.“

Strandblakvöllur á Víðistaðatúni með engum línum, grófum sandi og hættulegum hindrunum í jaðri vallar.

Algjör sprenging hefur verið í iðkun strandblaks á Íslandi á síðustu árum og eru haldin fjölmörg mót á hverju sumri út um allt land.  Stigamótaröð er haldin á hverju ári og í fyrra tóku alls um 260 manns þátt.  Mótin taka heila helgi og keppendur þurfa þjónustu í formi aðstöðu til fataskiptanna, salerni, veitingasölu ofl.  Þar af leiðandi eru bestu strandblakvellir landsins iðullega tengdir við sundlaugar eða önnur íþróttamannvirki. Kosturinn við slíkar tengingar er einnig að mannvirkin loka á kvöldin og því minni líkur á skemmdarverkum á völlunum heldur en á opnum svæðum.

Heimavöllurinn nú í Garðabæ

Að sögn áttmenninganna er sameiginlegur félagafjöldi í Strandblakfélagi Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Blakfélagi Hafnarfjarðar nú um 200 manns.  Garðabær varð við ákalli félagsins og opnaði fyrirtaks aðstöðu bakvið íþróttamiðstöðina Ásgarð árið 2019 og er það heimavöllur félagsmanna í dag. Segja þau a aðstöðuna þar vera til fyrirmyndar og búið sé að setja leiktæki fyrir börn og ærslabelg til að höfða til allra aldurshópa.

Strandblakvellirnir í Garðabæ, takið eftir línum á völlum, fyrirtaks sandur og aðstaða til að hvíla lúin bein og skola lappir.
Fyrirmyndar aðstaða fyrir börnin við strandblakvellina í Garðabæ

„Einhverjir munu sjálfsagt spyrja sig hvað við séum að væla þar sem við erum nú þegar með aðstöðu í Garðabæ?  Staðan er sú að uppistaðan í félagsmönnum eru Hafnfirðingar og það er dapurlegt að horfa upp á lítinn metnað bæjarins í að auka fjölbreytni í íþróttaflóru bæjarins.“

Segja áttmenningarnir að strandblakvellir séu með ódýrustu íþróttamannvirkjum sem fyrirfinnast, eru mikið augnayndi og skapi suðræna stemmningu við sundlaugar.

Í dag eru um 40 vellir á landinu og segja þau einlæg ósk félagsmanna að Hafnarfjörður fari að bætast í þann hóp.

Strandblak

Strandblak er spilað á sandvelli sem er 8×16 metrar af stærð eða aðeins minni en hefðbundinn innanhúss blakvöllur sem er 9×18 m að stærð.  Einungis tveir leikmenn eru í hverju strandblakliði miðað við 6 leikmenn í innanhússblaki.  Spilaðar eru tvær hrinur upp í 21 stig og oddahrina upp í 15 stig ef lið eru jöfn eftir fyrstu tvær hrinurnar. Strandblak er íþrótt sem er einkar aðgengileg ungum sem öldnum þar sem eini búnaðurinn sem þarf er einn bolti.  Íþróttin hentar líka vel fólki sem á jafnvel erfitt með aðra hreyfingu sökum þess hve sandurinn fer vel með liðamót og bein.

Strandblakvellir eru einnig notaðir mikið af almenningi og börnum sem vilja einfaldlega leika sér.

Suðræn stemming á völlunum við Laugardalslaug.
Glæsileg strandblakaðstaða, með fjórum völlum er í Kjarnaskógi á Akureyri.

Ljósmyndir: Aðsendar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2