fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFréttirBíddu bara kitlaði hláturtaugarnar svo um munaði

Bíddu bara kitlaði hláturtaugarnar svo um munaði

Leikritið Bíddu var frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu sl. föstudag fyrir troðfullu leikhúsi. Var mikil ánægja ríkjandi meðal fólks að loks væri hægt að stunda leikhúslíf, nánast án takmarkana vegna Covid-19.

Leikritið er í raun blanda af leikriti og uppistandi þar sem Björk Jakobsdóttir, Salka Sól Eyfeld og Selma Björnsdóttir eru bæði höfundar og einu leikararnir. Ágústa Skúladóttir er leikstjóri sem fyrr í Gaflaraleikhúsinu en Þórunn María Jónsdóttir hannaði leikmynd og búninga. Leikmyndin var mjög einföld en með mjög litlum tilfærslum var hægt að ná fram ýmsum tilbrigðum sem studdu við verkið.

Leikritið fjallar um konur á ýmsum aldri sem eru á ólíkum stoppistöðvum í þessu ferðalagi sem lífið er.

Áhorfendur vor látnir velkjast í vafa með það hvort sögurnar væru skáldskapur eða upplifun leikaranna, svo raunsannar virtust þær. Þær nota sín eigin nöfn sem hjálpaði til við ruglinginn.

Þó umfjöllunarefnið væri í flestum tilfellum alvarlegs eðlis, þá var það framsett þannig að áhorfendur veltust um af hlátri. Spaugilegar hliðar lífsins voru því áberandi í verkinu og í raun aldrei neinn daufur kafli í sýningunni.

Á milli brustu þær í söng um málefnin og fóru allar á kostum, sérstaklega fannst undirrituðum mikið koma til söngs Selmu Björnsdóttur í Mömmulaginu, mikilli og hraðri textabombu þar sem þó mátti heyra hvert einasta orð. Salurinn hreinlega brást í brjáluð fagnaðarlæti og húrrahróp eftir sönginn.

Salka Sól var í hlutverki yngstu konunnar og fórst það mjög vel. Söngur hennar var gullfallegur eins og búast mátti við en hún sýndi líka flotta leikhæfileika.

Björk var í hlutverki elstu konunnar og fórst það vel enda gríðarlega reynd leikkona.

Þríeykið var jafn sjálfsagt og Covid-19 þríeykið og stóð sig alls ekki síður.

Þó umfjöllunarefnið sé konan og hennar áskoranir þá höfðar leikritið alls ekki síður til karlmanna sem virtust skemmta sér jafn vel og kvenfólkið á frumsýningunni, þó greina mætti að kynin hafi ekki alltaf hlegið jafnmikið á sömu stöðum.

Glæsilegur gleðifarsi sem enginn sem nýtur þess að hlæja ætti að láta hjá sér fara.

Á sýningin alveg skilin 5 ½ stig af 5 mögulegum 🙂

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2