Harður árekstur varð skömmu fyrir hádegi er ökumaður bíls sem ekið var niður Lækjargötu tók vinstiri beygju inn að Hafnarfjarðarkirkju í veg fyrir aðra bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.
Skipti engum togum að bíllinn sem kom niður Lækjargötu kastaðist til og endaði hálfur úti í tjörn við Hafnarfjarðarkirkju með vinstra afturhjól hátt á lofti.
Ökumanninum, eldri konu var hjálpað upp úr bílnum af fólki sem kom að og var hlúð að henni í aftursæti hinnar bifreiðarinnar þar til sjúkrabíll kom að. Var hún flutt í burt með sjúkrabíl en ekki er vitað annað en að hún hafi ekki meiðst alvarlega.
Lítið sást á hinum bílnum og segir vitni að atburðinum að sér hafi sýnst að ekki hafi verið hratt ekið. Grænu bifreiðinni hafi einfaldlega verið beygt í veg fyrir hina bifreiðina.
Tækjabíll slökkviliðsins kom á staðinn en ekki var að sjá að olía læki úr bílunum.
Það vakti athygli að ökumaður steypubifreiðar sem kom frá hringtorginu í átt upp Lækjargötu hreinlega tróð sér yfir á öfugan vegarhelming á meðan aðrar bifreiðar fóru annað. Með bendingum var hann að reyna að stjórna umferðinni á móti og lögreglan sem var á staðnum gerði enga tilraun til að stýra umferð. Ók hann því á móti umferð á öfugum vegarhelmingi, yfir gangbraut, til þess að komast inn á Suðurgötu.