fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirBjörn Thoroddsen er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2022

Björn Thoroddsen er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2022

Tilkynnt var um bæjarlistamann Hafnarfjarðar í upphafi Bjartra daga í dag

Björn Thoroddsen, gítarleikari, er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2022. Þetta var tilkynnt við athöfn í Hafnarborg rétt í þessu í upphafi menningarhátíðarinnar Bjartra daga.

Fyrir hönd Hafnfirðinga þakkaði Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Birni fyrir hans framlag til menningarlífsins í Hafnarfirði og sagðist vona að nafnbótin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2022 væri honum hvatning til áframhaldandi góðra verka í Hafnarfirði og um heim allan.

Björn Thoroddsen bæjarlistamaður ásamt bæjarstjóra og formanni menningar- og ferðamátanefndar

Æskuárin í Hafnarfirði

Björn Thoroddsen fæddist í febrúar 1958 og ólst upp á Hringbraut 34 með fjölskyldu sinni, foreldrum og þremur systkinum, en fjölskyldan flutti síðar yfir garð­vegginn í hús á Holtsgötu 12.

Hann var yngstur systkina en eldri systkini hans voru fædd á Bíldudal. Foreldrar hans voru Vestfirðingarnir Erla Hannesdóttir Thoroddsen, húsfrú með meiru og Stefán Ólafsson Thor­odd­sen sem var lengi útibússtjóri í Búnaðarbankanum í Reykjavík.

Þrátt fyrir að hafa flutt fjórtán ára með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur, hefur alltaf talið sig Gaflara.

Björn heima á Holtsgötunni. Sést í hús á Selvogsgötunni í bakgrunni.

Í samtali við Fjarðarfréttir fyrir þremur árum saði Bjössi Thor: „Tíminn í Hafnarfirði mótaði mig algjörlega,“ og minntist dreym­inn á svip opna svæðisins á milli Holtsgötu og Hverfisgötu sem hann segist hafa upplifað næstum óbreytt þegar hann fór þar um daginn. „Ég ek alltaf í gegnum Hafnarfjörð þegar ég kem úr Keflavík og tek stundum krók­inn eftir Hringbrautinni,“ sagði Björn sem flutti fyrir tveimur árum í gamalt hús við Hringbrautina, sem hann sjálfur kallar kastalann sinn en þar hefur hann komið sér upp 40 m² hljóðveri og er yfir sig ánægður þar.

Harmónikka og djúkbox

Björn var 11 ára þegar hann fór að læra á gítar. Faðir hans lék á harmónikku en t.d. hafi ekki verið til plötuspilari á heimilinu. „En það var djúkbox í Dórasjoppu,“ sagði Björn og það fór nokkur tími í að finna nákvæmlega út í hvaða húsi hún var. Niðurstaðan var að hún hafi verið í gamla Birninum, Vesturgötu 2, sem nú er búið að rífa. Þar var Kaupfélagið með veiðarfæra- og bygginga­vöru­verslun og þar minnist Björn sjoppunnar og djúkboxins.

„Þar heyrði ég t.d. Hey Joe með Jimi Hendrix sem ég gleypti í mig og hljóp heim til að reyna að spila það,“ sagði Björn og sagði að það hafi ekki gengið sérstaklega vel. Hann sagðist þó hafa haft gott eyra en það hafi verið öllu flóknara að finna hljóma og annað hjálplegt sem nú er aðgengilegt öllum á vefnum.

Fyrsti gítarinn

Hann fékk sinn fyrsta gítar í fermingargjöf, tékkneskan Lignastone gítar úr Hljóðfærahúsi Sigríðar Helga­dóttir í kjallaranum á Morgunblaðshúsinu. Hann fór fljótt að spila í hljóm­sveitum með öðrum strákum og fyrsta sviðsframkoman var í pásu á dans­æfingu í Flensborg þegar Björn var 13 ára. 14 ára lék hann svo fyrst á tónleikum í Bæjarbíói.

Áhuginn jókst og um 17 ára aldur var hann farinn að spila með hljómsveitum í Reykjavík. Hann var fljótur að „pikka“ upp lög en áttaði sig á því að nauðsynlegt var að kunna á nótur. Hann hóf þá nám í klassískum gítarleik í Tónskóla Sigursveins, en ekki var boðið upp á annað gítarnám á Íslandi á þessum tíma.

Björn með gítarinn á unglingsárum.

Nám í Los Angeles

Eftir hvatningu kennara síns hélt Björn árið 1980 til Los Angeles. „Þar fór ég í flottasta gítarskóla sem er til enn.“ Þar var kennt á rafgítar, djass, blues, popp og í raun allt nema klassískan gítarleik. Þar gekk honum mjög vel og fékk viðurkenningu sem einn af 10 hæfi­leika­ríkustu gítarleikurunum þar.

Þetta var greinilega mikill og góður skóli fyrir Björn og þar kynntist hann fjölda hæfileikaríkra gítarleikara. Og þarna lærði Björn að koma fram, að það væri ekki nóg að vera góður gítarleikari. Þetta var erfitt fyrir feiminn Íslendinginn en átti eftir að koma sér vel.

„Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að hringja í Björgvin Hall­dórsson,“ sagði Björn og glottir. „Björn hver?,“ svaraði Björgvin nokkuð kuldalega, þegar hann kynnti sig. Það var skemmtilegt samtal að sögn Björns en Björgvin tók honum afskaplega vel. Hann bauð honum með sér í Hljómsveit Björgvins Halldórssonar og Björn tók með sér í hljómsveitina, tvo sænska skólabræður frá Los Angeles. Úr varð mjög góð hljómsveit en fyrst var farin hefðbundinn túr um Ísland en svo tók við fræg 5 vikna Rússlandsferð hljóm­sveitarinnar þar sem spiluð voru lögin hans Bjögga, Totolög og tvö af lögum Bjössa Thor.

Síðan tóku við nokkur ár á Broadway sem Björn segir að hafi verið blómatími með góðum launum. En þetta var í síðasta skiptið sem Björn lék í dans/ball hljóm­sveit.
Síðan hefur Björn leikið víða um heim með hæfileikaríkustu gítarleik­urum heims. Hann fór fljótt að semja og útsetja og hefur ekki tölu á hljóm­plötum sínum sem gefnar hafa verið út um víðan heim.

Feimnin og uppistandið

Hann kom einn fram í fyrsta skipti í Kanada og segir það hafa verið gríðarlega erfitt en sér hafi verið tekið afskaplega vel og oftar og oftar hafa hann komið fram einn með gítarinn og verið eins og uppstandari. „En þegar ég sit með gítarinn og byrja að tala, þá er vart hægt að stoppa mig,“ segir Björn sem segist hins vegar varla geta hugsað sér að standa upp og halda stutta tölu.

Glæstur ferill

Björn hefur verið einn atkvæðamesti djasstónlistarmaður landsins en um þessar mundir eru 40 ár frá því að fyrsta sólóplatan hans „Svif“ kom út.

Björn Thoroddsen á heimavelli

Hann hefur gefið út yfir þrjátíu hljómplötur undir eigin nafni auk fjölda samstarfsverkefna og hefur tónlist hans verið gefin út í Evrópu, í Norður- og Suður Ameríku og Asíu. Hann hefur m.a. samið og útsett tónlist fyrir tríóið Guitar Islancio sem hefur vakið verðskuldaða athygli bæði hér heima og erlendis fyrir nýstárlegar útsetningar á þjóðlögum.

Björn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín á ferlinum. Árið 2003 var hann útnefndur „Jazztónlistarmaður ársins“, fyrstur íslenskra gítarleikara; Jazztónskáld ársins 2005, fékk viðurkenningu frá International Association for Jazz Education og hlaut gullmerki Félags íslenskra hljómlistarmanna fyrir framlag sitt til jazztónlistar árið 2011.

Guitarama

Hafnfirðingar hafa fengið að njóta tónlistar Björns á heimavelli en tónlistarhátíðin Guitarama sem Björn hefur skipulagt um 15 ára skeið, hefur verið haldin í Hafnarfirði undanfarin ár. Guitarama er alþjóðleg tónlistarhátíð þar sem gítarinn er í aðalhlutverki og fjölmargir fengið Gullnöglina fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Björn er gestgjafi og fær til sín fjölbreytta flóru tónlistarmanna. Hátíðin er fræðandi, uppbyggjandi og er fyrir alla aldurshópa með virka tengingu við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og ungmennahúsið Hamarinn enda veit Björn manna best að það getur virkað sem vítamínsprauta fyrir unga fólkið sem er að fást við tónlist að sjá, heyra og hitta þá sem standa fremst. Guitarama hefur farið víða og borið nöfn borga sem hátíðin hefur verið haldin í m.a Winnipeg, Bergen, Reykjavik, Chicago, Denver og Edmonton en nú er hátíðin komin heim í Hafnarfjörð þar sem hjarta Björns slær.

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2