fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimÁ döfinniBörn fimm skipverja á Selvogsgötunni urðu föðurlaus er Sviði GK-7 fórst 1941

Börn fimm skipverja á Selvogsgötunni urðu föðurlaus er Sviði GK-7 fórst 1941

Sýning tileinkuð slysinu stendur yfir í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju

Hafnarfjarðartogarinn Sviði GK-7 fórst að morgni 2. desember 1941 með 25 manna áhöfn. Hafði togarinn haldið til veiða 23. nóvember og var á leið af veiðum með fullfermi þegar skipið hreppti mikið óveður út af Breiðafirði. Á skipinu voru 12 Reykvíkingar, 11 Hafnfirðingar, 1 af Akranesi og 1 úr Mýrdal.

Var slysið gífurlegt áfall og stór hópur barna á Selvogsgötunni varð föðurlaus í einni svipan en fimm skipverjanna bjuggu þar. Þá ollu deilur um hver ætti að greiða dánarbætum afkomendum miklum erfiðleikum og mörg ár liðu þar til dánarbæturnar voru greiddar út.

Magnús Gunnarsson, sóknarnefndarformaður, Egill Þórðarson, sr. Þorvaldur Karl Helgason og sr. Jón Helgi Guðmundsson prestur í Hafnarfjarðarkirkju

Þann 2. desember var haldin fámenn bænastund í Hafnarfjarðarkirkju vegna þeirra sjómanna sem fórust með Sviða.

Til stóð að halda minningarguðsþjónustu sunnudaginn 26. nóvember sl. sem ekki var hægt vegna faraldursins en í beinu framhaldi af minningarguðsþjónustunni stóð til að opna sýningu um þetta mannskæða slys sem risti svo djúp sár í líf Hafnfirðinga og margir lifa enn í skugganum af.

Vegna þeirrar stöðu sem upp var komin, varð það úr að opna sýninguna með fámennri bænastund að morgni 22. desember s.l.

Tvíþætt sýning í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju

Egill Þórðarson tekur á móti fólki á sýningunni

Sýningin er opin á skrifstofutíma kirkjunnar frá um kl. 10 til 16 virka daga, nema föstudaga þegar opið er til hádegis. Á þriðjudögum og fimmtudögum milli kl. 13 og 15 veitir Egill Þórðarson loftskeytamaður leiðsögn um sýninguna.

Hluti sýningarinnar í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Sýningin er tvíþætt, annars vegar er sýning sem Sr. Þorvaldur Karl Helgason hefur unnið um þá sem fórust og fjölskyldur þeirra, hins vegar er sýning um atburðinn og kringumstæður sem Egill Þórðarson loftskeytamaður hefur unnið.

Sýnt er hvar brak fannst úr bátum og hvar leitarskip fóru um.

Þar má m.a. sjá hvar áætlað er að Sviði hafi farist, hvernig veðrið var á þessum tíma og morssendingar á dulmáli á milli skipa sem voru í samkrulli, í sk. kódafélögum.

Systurskip Sviða, breski tundurduflaslæðarinn Thomas Cornwall. Sviða hafði verið mikið breytt eins og sjá má þegar myndir af skipunum eru bornar saman.

Þegar aðstæður leyfa verður haldin minningarguðsþjónusta í Hafnarfjarðarkirkju um þá sem fórust með Sviða GK-7.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2