Fjölskylduráð hefur samþykkt tillögu fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um breytingar á reglum um frístundastyrk fyrir íbúa 67 ára og eldri.
Breyting er gerð á 2. grein reglnanna þannig að niðurgreiðslur verði ekki lengur tekjutengdar hjá hjónum, heldur miðist við tekjur einstaklings. Er það sama viðmið og við niðurfellingu fasteignagjalda.
Þá er jafnframt lagt til að breytingar verði gerðar á 4. grein reglnanna þannig að umsóknarferlið verði einfaldara og að það nægi að skila staðgreiðsluskrá síðasta árs í stað skattframtals.
Í greinargerð með tillögunni segir að markmið breytinganna sé að gera frístundastyrkinn aðgengilegri og skilvirkari fyrir eldri íbúa bæjarins sem er í takt við stefnu Hafnarfjarðarbæjar um að efla þjónustu við eldri borgara. „Breytingarnar byggja áfram á þeirri jákvæðu þróun sem hófst með samþykkt bæjarstjórnar þann 12. mars sl. en tryggir enn betur að fleiri íbúar 67 ára og eldri eigi rétt á frístundastyrk.“
Tillögunni var vísað til frekari úrvinnslu hjá sviðsstjóra.