fbpx
Mánudagur, janúar 20, 2025
HeimFréttirCarbfix fer villu vega í Hraunum

Carbfix fer villu vega í Hraunum

Ómar Smári Ármannsson skrifar

Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix, heldur því fram í Fjarðarfréttum að andstæðingar staðsetningar niðurdælinga fyrirtækisins hafi nefnt aðdrætti þess utan úr heimi eitur, sem er bara rangt. Hins vegar er vel réttlætanlegt að nefna aðdrættina sorp í þeim skilningi að um afgangsafurð fyrirtækjareksturs er að ræða sem koma þarf til förgunar. Þá er rétt að aðferðin er ekki sönnuð eða vottuð, nema ef vera skyldi einungis af fyrirtækinu sjálfu.

Hugmynd Carbfix er að dæla menguðu koltvíoxíði undir íbúabyggð í Hafnarfirði. Félagið vill koma á geymslu og kolefnismóttöku við Vallarhverfið í Hafnarfirði og áformar að taka þar á móti koltvíoxíði til niðurdælingar og hefur fólk skiljanlega talsverðar áhyggjur af þeirri fyrirhugðu starfsemi. Ekki er hægt að fullyrða að efnið sé ómengað og allt eins líklegt að svo sé ekki. Efnið kemur frá blönduðum iðnaði eins og áliðnaði og stálbræðslum og getur innihaldið ýmis snefilefni. Gert er ráð fyrir að 130 sorpefnaskip sigli um Faxaflóa á ári hverju. Þetta segir m.a. Guðmundur Helgi Víglundsson véltæknifræðingur.

Guðmundur segir að koltvíoxíð sem ætlunin er að dæla niður í Hafnarfirði sé gjörólíkt því efni sem dælt sé niður á Hellisheiði enda sé það efni sem þar sé dælt niður afar hreint en efninu sem á að dæla niður í Hafnarfirði sé ógjörningur að hreinsa og því fylgi mengandi efni því niður í jarðveginn. Það sé vegna þess að það efni komi meðal annars frá ál og stáliðnaðarframleiðslu.

Hann segir um mjög mikið inngrip í náttúruna að ræða sem alltof lítil umræða hafi verið um og íbúum hafi ekki verið kynnt áformin með fullnægjandi hætti. Hann segir afar mikilvægt að íbúar á svæðinu kynni sér ítarlega hvað hér sé á ferðinni og hvað sé í vændum.
Hann bendir á að á heimasíðu Carbfix komi beinlínis fram að efnið sé líkt og sýra sem brenni sig niður í berglög og veldur því að þau losi málma á borð við kalsíum, magnesíum og járn.

Niðurdælingin eykur líkur á jarðskjálfta

Þá sé ljóst að miklar jarðsprungur séu á Reykjanesskaga og aðliggjandi svæðum líkt og stafest hefur verið í kjölfar eldgosanna á vestanverðum skaganum og niðurdælingarnar geti haft þar áhrif enda hefur niðurdæling á Hellisheiði til að mynda valdið jarðskjálftum í Hveragerði og íbúarnir þar hafa þegar orðið fyrir talsverðum óþægindum. Guðmundur segir að staðan sé einfaldlega sú að nú sé yfirstandandi jarðeldatímabil á Reykjanesi sem auki hættuna á að eitthvað geti farið úrskeiðis með ófyrirséðum afleiðingum. Þá gæti mengun af þessum efnum jafnvel borist út í grunnvatn og þá geti yfirborð grunnvatns hækkað að auki um allt að 40 cm. Það sé óafturkræft ef slík eiturefni komist í grunnvatnslindir sem sé auðvitað neysluvatn Hafnfirðinga og fleiri.

Gera þarf fólki ljóst að loftslagsvandinn verður ekki leystur með því að sigla með mengaðan úrgang frá erlendum efnaverksmiðjum til urðunar á Íslandi, segir Guðmundur Helgi Víglundsson. Allra síst að dæla úrganginum niður í nágrenni íbúðarbyggðar. Ef hægt er að flytja slíkan úrgang millum heimsálfa ætti að vera hægðarleikur að flytja hann með tankbílum yfir á óbyggð svæði.

Carbfix og CarbQuest sameina krafta sína

Jákvætt ljós hefur kviknað í umræðunni er Carbfix og CarbonQuest undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf í Norður-Ameríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Miklu mun eðlilegar er að fyrirtæki líkt og Carbfix beini athygli sinni að „grafa“ sorpið í bergi þess lands, sem það er upprunnið með því að „hjálpa fyrirtækjum þar að draga úr kolefnislosun. Með samstarfinu munu fyrirtækin tvö nýta sérþekkingu sína á staðbundinni kolefnisföngun og steinrenningu til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Bandaríkjum og Kanada að draga verulega úr losun tengdri starfsemi þeirra.
Markmiðið er að draga úr kostnaði og bæta skilvirkni slíkra verkefna en tækni CarbonQuest, sem verður notuð í samstarfinu, er hægt að aðlaga að núverandi orkukerfum margra fyrirtækja í viðkomandi löndum“.

Höfnum sóðaskapnum

Hraunin umleikis Hafnarfjörð eru verðmætari en svo að þeim beri að raska í þágu skammtímasjónarmiða. Reyndar hafa kjörnir bæjarfulltrúar verið allt of værukærir þegar kemur að verndun og varðveislu umhverfisins er raunverulega skiptir bæjarbúa mestu máli.
Íbúar í Hafnfirði þurfa að vera mjög vel meðvitaðir þegar hagsmunir þeirra eru annars vegar – til lengri framtíðar litið.

Ómar Smári Ármannsson

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2