fbpx
Miðvikudagur, ágúst 14, 2024
HeimFréttirAtvinnulífDagný Kristinsdóttir er nýr skólastjóri Víðistaðaskóla

Dagný Kristinsdóttir er nýr skólastjóri Víðistaðaskóla

Sjö umsækjendur voru um stöðu skólastjóra Víðistaðaskóla en staðan var auglýst 6. júní sl. eftir að Hrönn Bergþórsdóttir sagði stöðu sinni lausri eftir 11 ára starf sem skólastjóri.

Þann 17. júlí sl. var birt tilkynning á vef Hafnarfjarðarbæjar að Dagný Kristinsdóttir hefði verið ráðin skólastjóri en umsóknarfrestur rann út 21. júní sl.

Skv. upplýsingum Fjarðarfrétta voru þrír metnir hæfir en Dagný metin hæfust. Ráðningar skólastjóra fara ekki fyrir fræðsluráð en þriggja manna nefnd mat umsækjendur, Þórunn Jóna Hauksdóttir, deildarstjóri grunnskólamála, Lind Einarsdóttir, mannauðsstjóri og Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs.

Dagný lauk B.Ed í grunnskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006 og áföngum til BA í íslensku árið 2014. Þá lauk Dagný meistaranámi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2018. Hún lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands árið 2022. Dagný hefur starfað sem grunnskólakennari í mörg ár og einnig verið deildarstjóri í grunnskóla. 20219-2020 starfaði hún sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu við Háskólann á Bifröst.

Hún var ráðin skólastjóri Hvassaleitisskóla 2020 en sagði upp störfum í desember 2022 eftir mikla ólgu í skólanum þar sem óánægja var með stjórnarhætti skólastjórans og starfsaðstæður í skólanum. Tuttugu og tveir þáverandi starfsmenn skólans af 47 sögðust í yfirlýsingu telja framkomu skólastjórans óviðunandi og vinnuumhverfi óboðlegt. „Afstaða starfsfólks er skýr: Við viljum að skólastjórinn stígi til hliðar,“ sagði í yfirlýsingunni sem hópurinn sendi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Fór skólastjórinn í leyfi en sagði svo upp stöðu sinni. Hún starfaði síðast sem deildarstjóri stigs í Setbergsskóla.

Umsækjendur um stöðu skólastjóra Víðistaðaskóla:

  • Ari Jóhann Sigurðsson, sérkennari, Kópavogi
  • Arnar Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Kópavogi
  • Arngunnur Hafstað Sigurþórsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grandaskóla, Reykjavík
  • Dagný Kristinsdóttir, deildarstjóri, Mosfellsbæ
  • Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, aðstoðarskólastjóri Hraunvallaskóla, Hafnarfirði
  • Guðmundur Björgvin Sigurbjörnsson, deildarstjóri í Víðistaðaskóla, Hafnarfirði
  • Soffía Ámundadóttir, deildarstjóri, Reykjavík

Víðistaðaskóli er teymiskennsluskóli með fjölbreytta kennsluhætti. Í skólanum eru 2 bekkjardeildir á yngsta stigi, 3 bekkjardeildir á miðstigi og 3–4 bekkjardeildir á elsta stigi. Í upphafi skólaársins 2023–24 voru um 520 nemendur í skólanum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2