Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður úr FH er íþróttakarl Hafnarfjarðar 2024 og Elín Klara Þorkelsdóttir, handknattleikskona úr Haukum er íþróttakona Hafnarfjarðar 2024.
Þetta var upplýst á Íþróttahátíð í íþróttahúsinu við Strandgötu í kvöld þar sem íþróttafólk var heiðrað og afrekum ársins fagnað.
Daníel Ingi Egilsson, FH

Daníel Ingi Egilsson (24) byrjaði að æfa frjálsíþróttir aftur haustið 2021 eftir nokkurra ára hlé. Hann hefur síðan náð stórstígum framförum í langstökki og þrístökki og komst á árinu í hóp þeirra allra bestu í heiminum í langstökki þegar hann varð Norðurlandameistari. Hann stökk 8,21 m og bætti þar með 28 ára gamalt Íslandsmet (8,00 m) Jóns Arnars Magnússonar.
Daníel Ingi varð meðal annars Norðurlandameistari í þrístökki árið 2023 með 15,98 m og stökk lengst 7,92 m í langstökki það ár. Hann keppti á Evrópumeistaramótinu í Róm í byrjun júní, stökk þá einnig 7,92 m og rétt missti af því að komast í úrslit. Á þessu ári er Daníel í 17. sæti bestu langstökkvara í heimi. Einungis 9 cm vantaði til að komast upp í 9. sætið, svo mjótt er á munum.
Besta afrek FH-ings í frjálsíþróttum og 5. besta afrek Íslendings
Afrek Daníels Inga er besta afrek FH-ings frá upphafi í frjálsíþróttum og fimmta besta afrek Íslendings í frjálsíþróttum frá upphafi samkvæmt afreksstigum alþjóða frjálsíþróttasambandsins IAAF.

Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum

Elín Klara Þorkelsdóttir er íþróttakona Hafnarfjarðar 2024 rétt eins og í fyrra. Þrátt fyrir ungan aldur er Elín Klara orðin ein besta handknattleikskona landsins og hefur hún skapað sér nafn bæði hérlendis og erlendis. Á tímabilinu 2023-2024 leiddi hún meistaraflokk Hauka til úrslita í Íslandsmótinu þar sem liðið tapaði fyrir Val. Að tímabilinu loknu var Elín Klara valin besti leikmaður deildarinnar annað tímabilið í röð en Elín var einnig markahæsti leikmaður deildarinnar. Í lok árs sitja Elín og félagar í Haukum í 3. sæti Olís deildar kvenna og er Elín Klara sem stendur markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt því að vera í öðru sæti yfir þá leikmenn sem hafa gefið flestar stoðsendingar.

Elín Klara átti fast sæti í A-landsliði kvenna á árinu sem tryggði sig inn á lokakeppni Evrópumóts sem fram fór fyrr í desember, í fyrsta skiptið í 12 ár. Elín Klara var þar í stóru hlutverki þar sem hún stýrði leik liðsins af festu og var ein af markahæstu leikmönnum liðsins. Á árinu lék Elín Klara einnig með U-20 ára landsliði Íslands þar sem þær léku í lokakeppni HM. Þar var Elín fremst í flokki þegar liðið náði besta árangri sem íslenskt kvennalandslið hefur náð eða 7. sæti. Að mótinu loknu var Elín Klara svo valin í úrvalslið mótsins sem besti leikstjórnandi mótsins.
Tilnefnd til íþróttakonu Hafnarfjarðar 2024
• Aníta Ósk Hrafnsdóttir – Íþróttafélagið Fjörður – Frjálsíþróttir og kraftlyfingar
• Elín Klara Þorkelsdóttir – Knattspyrnufélagið Haukar – Handknattleikur
• Gerda Voitechovskaja – Badmintonfélag Hafnarfjarðar – Badminton
• Guðbjörg Reynisdóttir – Bogfimifélaginu Hróa Hetti – Bogfimi
• Ingibjörg Erla Grétarsdóttir – Fimleikafélagið Björk – Taekwondo
• Irma Gunnarsdóttir – Fimleikafélag Hafnarfjarðar – Frjálsíþróttir
• Sara Rós Jakobsdóttir – Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar – Dans
• Sól Kristínardóttir Mixa – Badmintonfélag Hafnarfjarðar – Borðtennis
• Vala Dís Cicero – Sundfélag Hafnarfjarðar – Sund
• Þóra Kristín Jónsdóttir – Knattspyrnufélagið Haukar – Körfuknattleikur
Tilnefnd til íþróttakarls Hafnarfjarðar 2024
• Anton Sveinn McKee – Sundfélag Hafnarfjarðar – Sund
• Aron Pálmarsson – Fimleikafélag Hafnarfjarðar – Handknattleikur
• Daníel Ingi Egilsson – Fimleikafélag Hafnarfjarðar – Frjálsíþróttir
• Ísak Jónsson – Knattspyrnufélagið Haukar – Knattspyrna
• Leo Anthony Speight – Fimleikafélagið Björk – Taekwondo
• Nicolo Barbizi – Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar – Dans
• Róbert Ingi Huldarsson – Badmintonfélag Hafnarfjarðar – Badminton
• Róbert Ísak Jónsson – Íþróttafélagið Fjörður – Sund
• Róbert Ægir Friðbertsson – Hjólreiðafélagið Bjartur – Hjólreiðar
• Össur Haraldsson – Knattspyrnufélagið Haukar – Handknattleikur