Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, kynnti á fréttamannafundi rétt í þessu nýjar aðgerðir til að hindra úbreiðslu kórónavírusins í Danmörku en smituðum hefur fjölgað hratt í landinu og eru nú 156 og hefur fjölgað um 66 í dag. Enginn er þó skráður alvarlega veikur.
Beinast aðgerðir m.a. að því að vernda fleiri hópa fólks sem gætu verið viðkvæmir. Hvatti hún fólk til að fara ekki til „rauðra“ svæða og hvatti hópa til að ferðast ekki til svæða þar sem smit er útbreitt.
Kynnti hún möguleika á að fjölga lestum og strætisvögnum svo fólk gæi haldið meiri fjarlægð frá hverjum öðrum. Þá kynnti hún að fólk sem kæmi frá rauðum svæðum fengi ekki að fara inn í flughafnir eða nota almenningsvagna. Frá morgundeginum verður flugvélum frá N-Ítalíu ekki heimilt að lenda í Danmörku.
Mun danska ríkisstjórnin kynna aðgerðir til að hjálpa fyrirtækjum vegna afleiðinga COVID-19 veikinnar.
Var á fundinum upplýst að mikilvægt væri að bregðast hratt og örugglega við smitum svo heilbrgiðiskerfið ráði við að þjónusta alla. Verði ekki hratt brugðist við gæti ástandið orðið þannig að heilbrigðiskerfið réði ekki við að takast á við vandann.
Erik Brøgger Rasmussen frá utanríkisráðuneytinu hvatti Dani til að ferðast ekki til útlanda, sama þó þar væru lítil eða engin smit. Smitum hefur fjölgað svo mikið að þeir þurfa að huga að því að þeir geta smitað aðra.