Félag eldri borgara í Hafnarfirði stóð fyrir mikilli dansleikfimihátíð í hátíðarsalnum í Kaplakrika í morgun. Er þetta liður í að vekja athygli á að Hafnarfjörður er heilsubær og hvatning til fleiri að taka þátt.
Auk hafnfirskra dansara mættu eldri borgarar út Garðabæ og úr Hæðargarði í Reykjavík og um 150 eldri borgarar dönsuðu af mikilli gleði undir dynjandi tónlistinni.
Auður Harpa Andrésdóttir zumbakennari stjórnaði af mikilli röggsemi en hún er reglulega með zumbadans í Hraunseli.
Þegar hátíðin hófst var greinilegt að dansararnir vissu hvað var að fara að gerast, þeir voru spenntir og ákafir í að fá að sletta úr klaufunum enda trylltist salurinn þegar tónlistin fór að hljóma. Þarna hljómuðu engir valsar, frekar var rokkað og takturinn stiginn af miklu öryggi og gleði. Æstust leikar eftir sem á leið og enginn vildi hætta. Dansararnir komu uppveðraðir af gólfinu og þeir sem stóðu álengdar og horfðu á, nöguðu sig í handarbökin að hafa ekki haft kjark til að dansa með.
Konurnar voru í miklum meirihluta og aðeins sáust þrír karlmenn á gólfinu og endurspeglar það örugglega ekki dansgleði hafnfirskra karlmanna.
Boðið var upp á kaffi og kleinur í lokin.
„Að dansa það er lífsins list“, segja eldri borgarar og það voru greinilega orð að sönnu í dag.