Um kvöldmatarleytið lenti sendibifreið á ljósastaur á Reykjanesbraut. Var bifreiðin á leið í austurátt, sunnan við kirkjugarðinn við fráreinina upp á Kaldárselsveg. Staurinn er sk. brotstaur sem er hannaður þannig að boltar sem halda staurnum við undirstöðu eiga að renna út úr sæti sínu við árekstur. Eins og sést á meðfylgjandi mynd virkaði þessi búnaður ekki. Er þetta ekki óalgengt enda voru staurarnir ekki árekstrarprófaðir við hönnun þeirra.
Staurinn dróst allur upp úr jörðinni og endaði alllangt frá upprunalegum stað hans. Bíllinn er mikið skemmdur en sem betur fer slasaðist enginn.
Lögregla vildi ekkert gefa upp um orsakir árekstursins en staðfesti þó að ekki hafi verið hálka á veginum en þarna getur oft orðið launhált þegar kólnar.
Slökkviliðið aðstoðaði við að hreinsa upp á staðnum og var fráreinin lokuð um nokkurn tíma svo og önnur akrein Reykjanesbrautar. Ekki var mikil umferð á þessum tíma.