fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
target="_blank"
HeimFréttirAtvinnulífEkki lakari vatnsbúskapur í 7 ár og skerða þarf orku - óvíst...

Ekki lakari vatnsbúskapur í 7 ár og skerða þarf orku – óvíst hversu mikið til ÍSAL

Ekki upplýst um skerðingu til einstakra notenda

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar hefur ekki verið lakari í sjö ár. Innrennsli á vatnasviðum helstu vatnsaflsstöðva hefur verið mjög dræmt vegna þurrkatíðar, annað haustið í röð, og staða miðlunarlóna því lág.

Staðan er sérstaklega slæm á Þjórsársvæðinu og Þórisvatn hefur ekki verið lægra síðan veturinn 2013-2014 þegar afhending raforku til stórnotenda með sveigjanlega raforkusamninga var síðast takmörkuð. Þessi tvö ár skera sig úr eins og sést á myndinni hér til hliðar. Þetta er afleiðing lítillar úrkomu á svæðinu síðastliðin tvö ár sem m.a. hefur valdið mjög lágri grunnvatnsstöðu.

Sem fyrr hamla takmarkanir á flutningsgetu því hversu mikið er hægt að flytja á milli landssvæða. Á sama tíma fer eftirspurn eftir raforku hjá Landsvirkjun sífellt vaxandi.

Samtals er staða miðlunarforðans nú um 600 GWst lakari en um áramótin 2020/2021. Niðurdráttur miðlunarlóna hófst í byrjun október sl. og hefur verið eindreginn. Ljóst er að grípa þarf til vatnssparandi aðgerða til að verja miðlunarforða kerfisins fram á vor.

Skerðingar allt að 3% af árlegri orkuvinnslu

Landsvirkjun hefur þegar gripið til aðgerða hjá viðskiptavinum sem hafa kosið mesta sveigjanleikann. Í desember var framboð af raforku til fiskmjölsverksmiðja takmarkað og nú er ljóst að ekki er til raforka inn á þennan markað fram á vor. Þetta er um 200 GWst skv. áætlunum þessara aðila á tímabilinu janúar-apríl.

Þá hefur Landsvirkjun einnig tilkynnt öðrum viðskiptavinum sínum með sveigjanlega raforkusamninga, þ.e. stórnotendum og fjarvarmaveitum, að miðað við óbreytta stöðu muni líklega koma til takmarkana á afhendingu orku til þeirra á næstu þremur til fjórum vikum. Gert er ráð fyrir að takmörkunin geti orðið samtals allt að 250 GWst til viðbótar þeim 200 GWst sem fiskimjölsverksmiðjur eru skertar um. Samtals nemur þessi mögulega takmörkun á afhendingu orku um 3% af árlegri orkuvinnslu Landsvirkjunar.

Ekki vitað um skerðingu í ÍSAL

Að sögn Bjarna Márs Gylfasonar, upplýsingafulltrúa RioTinto á Íslandi sem rekur álverið í Straumsvík, hefur Landsvirkjun ekki upplýst fyrirtækið hversu mikil skerðing getur orðið þannig að ekki er hægt að segja til um möguleg áhrif á framleiðsluna. Landsvirkjun hafi aðeins tilkynnt um mögulega skerðingu á næstu vikum.

Samningar gera ráð fyrir stöðunni

Í öllum tilvikum eru skerðingar í samræmi við samninga Landsvirkjunar og þessara viðskiptavina, þ.e. gert er ráð fyrir að til skerðinga geti komið þar sem endurnýjanleg orkukerfi eru háð duttlungum náttúrunnar. Að sama skapi gera samningar einnig ráð fyrir að viðskiptavinir Landsvirkjunar geti skert orkukaup sín, kalli rekstur þeirra á slíka breytingu. Landsvirkjun vinnur orkuna á ábyrgan hátt og viðskiptavinir okkar hafa við samningagerð sýnt skilning á að þessi staða geti komið upp.

Misjafnt er eftir samningum hver skerðingin verður hjá hverjum og einum og ekki hægt að gefa upplýsingar um stöðu einstakra viðskiptavina. Landsvirkjun fer nánar yfir stöðu mála með viðskiptavinum sínum á næstu dögum og hvernig takmarkanir á afhendingu orku snerta hvern og einn.

Reikna má með að þessar skerðingar standi fram á vor.

Viðbúið í slæmum vatnsárum

„Þótt við séum ávallt viðbúin því að þrengingar í vatnsbúskap setji strik í reikning okkar og viðskiptavinir hafi á því skilning, þá er þetta fjarri því að vera ákjósanleg staða. Landvirkjun vill geta afhent viðskiptavinum sínum alla þá raforku sem þeir þurfa. Vissulega eru sumir raforkusamningar beinlínis gerðir á þeim forsendum, að þá megi skerða og það endurspeglast í því verði sem greitt er fyrir orkuna. Við viljum hins vegar vinna að því að unnt verði að tryggja öllum örugga, græna orku,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar í tilkynningu.

Hægt er að fylgjast með raunstöðu í miðlunarlónum frá degi til dags á vef Landsvirkjunar.

Þróun vatnshæðar í Þórisvatni

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2