Forsetanefnd lagði til, á fundi sínum í gær, að við sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði 14. maí 2022 verði starfræktir tveir kjörstaðir, sem henti vel dreifingu íbúðabyggðar í bænum: Lækjarskóli og íþróttamiðstöðin Ásvöllum.
Töluverð óánægja var meðal bæjarbúa að aðeins voru tveir kjörstaðir í Hafnarfirði við síðustu kosningar og langt fyrir marga að fara.
Adda María Jóhannsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í forsetanefnd fagnaði því að loks eigi að að tryggja kjörstað á Völlunum en sagði það ákveðin vonbrigði að kjörstöðum hafi ekki verið fjölgað í a.m.k. þrjá.
„Til samanburðar hefur Reykjavíkurborg fjölgað kjörstöðum til muna með það að markmiði að bæta aðgengi kjósenda. Þar hefur það verið óopinbert markmið að kjörstaðir séu í göngufæri og geta um 84% íbúa borgarinnar gengið á kjörstað og heim aftur á 30 mínútum,“ sagði Adda María í bókun sinni.
Málið verður tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun, miðvikudag.